140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

innheimtulög.

779. mál
[11:15]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég man ekki alveg hver umræðan var um þetta en það fer oft saman að skuldari finnst ekki og lausafjármunir ekki heldur, það fylgist oft að. Ef fólk vill ekki láta ná í sig þá er það út af því að það vill ekki láta lausafjármuni af hendi og því reynir ekki á vörslusviptinguna þó að menn séu að reyna að vörslusvipta. Hitt er annað mál að ég er ekki alveg viss um að það sé rétt túlkun hjá hv. þingmanni að þegar komið er á staðinn og menn ætla að fara í vörslusviptingu að þá sé sanngjarnt að einhver tími sé gefinn, einn, tveir mánuðir eins og þingmaðurinn nefndi. Þegar kemur að vörslusviptingu er búið að reyna allt áður. Komnar eru fram alls konar viðvaranir og margar viðvaranir. Vörslusvipting verður ekki að ástæðulausu. Það hafa þá verið vanskil og annað slíkt.

Aftur á móti kom þetta sérstaka tilvik upp í kjölfar þess að gengislán voru dæmd ólögleg. Það getur verið að fólk sem er vel borgunarmenn fyrir hlutunum og er grandvart og heiðarlegt neiti einfaldlega að borga vegna þess að því finnist hafa verið brotið á rétti sínum og neiti þess vegna vörslusviptingunni. Þar koma einmitt þau skriflegu ákvæði sem er verið að innleiða núna að mjög góðum notum.