140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

innheimtulög.

779. mál
[11:30]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki náð að kynna mér þetta mál í kjölinn enda sit ég ekki í nefndinni og var svo sem ekki beint að búast við einhverjum réttarfarsbreytingum frá efnahags- og viðskiptanefnd. Það er kannski vegna þess að ég hef verið að einbeita mér að því að skoða mál frá allsherjarnefnd.

Í þessari umræðu, ég ætla ekki að vísa sérstaklega í ræðu hv. þingmanns heldur í allri umræðunni, finnst mér við stundum gleyma því að meginreglan í samningarétti bæði hér á landi og annars staðar í heiminum er sú að samningar skulu standa. Þegar horft er yfir þessi mál vonast ég auðvitað til þess að við gleymum því ekki að við búum í réttarríki og þurfum að gæta að báðum sjónarmiðum.

Að öðru leyti ætla ég að einbeita mér að því að kynna mér þetta mál betur þannig að ég geti tekið þátt í umræðunni.