140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

innheimtulög.

779. mál
[12:09]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er með mikilli gleði sem ég skal reyna að svara sumum af þessum spurningum. Það háttaði þannig til í nefndinni að það var meðal annars verið að ræða þær vörslusviptingar sem höfðu átt sér stað, sumar hverjar í skjóli nætur og gegn andmælum skuldara, og í störfum nefndarinnar var ákveðið að það skyldi reynt að skýra þær reglur sem um þetta gilda með einhverjum hætti. Eins og kemur fram í greinargerðinni með frumvarpinu er þetta unnið í samstarfi við innanríkisráðuneytið og réttarfarsnefnd, og réttarfarsnefnd kom á fund nefndarinnar og lýsti því hvernig þetta ætti að vera samkvæmt réttum lögum. Það sem þetta frumvarp gerir er ekki annað en að endurspegla þá grundvallarreglu sem gildir í íslenskum lögum og í lögum allra okkar nágrannaríkja og hún er sú að einstaklingur getur ekki fyrir fram afsalað sér réttarvernd. Ef maður gerir lánssamning sem segir að ef hann standi ekki í skilum með hann skuldbindi hann sig til að það megi taka hlutinn. Þegar til stykkisins kemur er ágreiningur milli þess sem telur sig eiganda tækisins og þess sem leigir það, ef við notum þá líkingu, um það hvort yfir höfuð sé um einhver vanskil að ræða.

Samkvæmt meginreglu réttarfarsins geta menn ekki afsalað sér vernd dómstóla fyrir fram og þá er gert skilyrði um að það liggi fyrir klárt skriflegt samþykki fyrir því að varslan sé tekin. Ef fram koma andmæli af hálfu skuldarans á hann rétt á því að farið sé eftir þeim reglum sem gilda í réttarríkinu og leitað sé til handhafa framkvæmdarvaldsins og dómstólanna til að skera úr þeim ágreiningi og taka vörsluna.

Nú, tíminn er búinn. Kannski kem ég í ræðu en þetta er meginatriðið, þetta er í samræmi við þær meginreglur sem almennt gilda.