140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

innheimtulög.

779. mál
[12:28]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, við hvaða tilvik á þetta? Hv. þingmaður fjallaði meðal annars um greiðslutryggingar iðgjalda en um það gilda sérlög. Þá er heimilt að beita öðrum og miklu fljótvirkari úrræðum þegar ekki eru greiddar tryggingar því að það er talið fela í sér hættu gagnvart almenningi að ótryggð ökutæki séu á ferðinni og það eru önnur ákvæði laga sem eiga við um það.

Hvað með veð í hlutabréfum, veðköll og veð í vinnuvélum sem rýrna hratt? Lögin eiga ekki við um veð og efndir veða. Þetta á einungis við um það þegar um er að ræða eignarrétt.

Er þetta brot á eignarrétti? Það var ein af þeim athugasemdum sem Lýsing nefndi. Nei, þetta er ekki brot á eignarrétti. Reglan er einungis um það eftir hvaða aðferðum þú nærð rétti þínum fram. Eins og ég sagði áðan er það meginregla íslenskra laga og í öllum hinum vestræna heimi að þú tekur ekki réttinn í þínar eigin hendur og þú getur ekki afsalað þér vernd dómstóla og yfirvalda fyrir fram. Þessi regla endurspeglar það og hefur ekkert með eignarréttinn að gera. Það að ég láni einhverjum manni hlut gegn leigu og við lendum í ágreiningi um hver leigan er, hvort vanskil eru eða hvað það er, þá má ég ekki fara og sækja hann. Það er ólögmæt sjálftaka. Ég á þá að leita til réttra yfirvalda til að framfylgja því ofbeldi sem þarf að beita í samfélaginu til að ná rétti sínum. Það er bara svo einfalt. Þetta hefur ekkert með vernd eignarréttar að gera, ekki nokkurn skapaðan hlut.

Má þá ekkert gera nema samþykki sé fyrir því, frú forseti? Já, það er þannig. Ef ágreiningur er á milli manna um innihald á réttarsambandi ber að leita til réttra yfirvalda og dómstóla um það. Það er meginreglan. Þessi lagaregla endurspeglar það og það kom mjög skýrt fram í störfum nefndarinnar að þetta er í samræmi við íslensk lög og stjórnarskrá þess vegna, þó að ekki hafi verið farið ítarlega inn í það vegna þess að að hluta til byggir umræðan á misskilningi.