140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

innheimtulög.

779. mál
[12:31]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ekki má misskilja mig þannig að ég sé að setjast í eitthvert dómarasæti í þessu. En þannig er að ef lausafé er veðsett þá er eignarhaldið hjá þeim sem er skráður fyrir eigninni, ekki satt? Ef vanskil verða og það reynir á skilmála veðsetningarinnar er óskað eftir nauðungaruppboði. Það er almenn og viðurkennd regla, og hefur verið um áratugaskeið á Íslandi, að þeim sem á kröfuna sem nauðungaruppboðið byggist á er ekki heimilt að fara og sækja þá eign sjálfur. Hann leitar til sýslumanns um þá aðgerð. Það er innsetningargerð, þetta á ekkert við um veðsetningar og á ekki að vera hægt að misskilja það þannig að það eigi við um það. Þetta á einungis við um þau tilvik sem þarna eru greind, þ.e. eignarhald er hjá A, B hefur afnotin gegnum greiðslu. Ef A ætlar að sækja eignina til B vegna þess að B hefur ekki staðið í skilum og B segir: Nei, ég vil ekki láta þig hafa hana, ég tel mig hafa staðið í skilum, þá á A að leita til réttra yfirvalda í samfélaginu. Þannig eru leikreglur réttarríkisins. Maður tekur ekki rétt sinn sjálfur. Það er það sem er ólögmætt.