140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[15:27]
Horfa

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir (S):

Frú forseti. Ég kem hér upp í aðra ræðu mína um þetta mál. Eins og kom fram fyrr í máli mínu hefur Íbúðalánasjóður gegnt lykilhlutverki í lánastarfsemi á því svæði þar sem ég bý. Hv. þingmenn sem hér hafa talað hafa verið mjög uppteknir af því að ræða málefni Íbúðalánasjóðs á þeim nótum að stilla upp landsbyggðinni á móti höfuðborgarsvæðinu. Ég vil að það komi fram að í prinsippinu er ég mjög fylgjandi því að hér ríki ákveðin markaðslögmál og frjáls samkeppni á lánamarkaði milli viðskiptabanka og hér sé, í prinsippinu, ekki ríkisrekin lánastofnun sem mundi lána til fasteigna eins og Íbúðalánasjóður.

Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir velti því fyrir sér í máli sínu hvort Íbúðalánasjóður ætti að gegna því hlutverki að vera félagssjóður, lítill sjóður sem mundi gegna því hlutverki að lána til fasteignakaupa þannig að allir mundu geta eignast þak yfir höfuðið, burt séð frá fjárhagsstöðu hvers og eins. Ég get ekki neitað því, frú forseti, að málið slær mig dálítið þannig, komandi af því svæði sem ég mundi gera ráð fyrir að ESA teldi vera markaðslega kalt svæði, að það sé nauðsynlegt að starfandi sé íbúðalánasjóður sem láni öllum landsmönnum. Ég tel því ekki svarað hvernig menn ætla að skikka viðskiptabankana til að koma inn á þessi svæði. Það er bara staðreynd að það hefur verið ógjörningur að fá lán til íbúðakaupa á ákveðnum svæðum fyrir utan stærstu þéttbýlisstaði landsins. Aftur á móti værum við sem búum utan þeirra staða ósátt við það að vera flokkuð inn í ákveðið félagslegt kerfi. Það væri að minnsta kosti mikil yfirlýsing í mínum huga ef svo yrði.

Frú forseti. Ég fór yfir þær tvær umræður sem hafa orðið um þetta mál og meðal annars það sem rætt var um innlausnir á íbúðum. Það er náttúrlega ekki nýtt að Íbúðalánasjóður hafi verið að leysa til sín íbúðir. Í fyrri ræðu minni fór ég meðal annars inn á stöðuna eins og hún hefur verið í Bolungarvíkurkaupstað og einnig í Vesturbyggð vegna lána sem sveitarfélögin hafa tekið hjá Íbúðalánasjóði. Það er óneitanlega stór pakki sem er að koma inn um allt land af íbúðum, ekki síst hér á höfuðborgarsvæðinu. Ef ég skil það rétt getur Íbúðalánasjóður einungis eignast íbúðir sem fara til fullnustuaðgerða á svokölluðum nauðungarsölum. Þá er hugmyndin samkvæmt þessu frumvarpi að það verði sett á stofn leigufélag í eigu ríkisins. Forsendan fyrir því er fyrst og síðast sú að ef íbúðirnar yrðu allar seldar mundi það skekkja mjög markaðinn og lækka fasteignaverð á þeim svæðum þar sem þær íbúðir kæmu fram til sölu. Þá hef ég velt því fyrir mér af hverju Íbúðalánasjóður eigi að stofna leigufélag um þessar íbúðir. Væri ekki hægt að leita til fasteignasala sem starfandi eru í landinu og eiga nokkurs konar samstarf með þær, að það væri í höndum þeirra sem starfa á þessum frjálsa markaði, fasteignamarkaði? Ég minntist á í fyrri ræðu minni að Samband íslenskra sveitarfélaga benti á að Íbúðalánasjóður gæti eignast íbúðir með makaskiptum eða öðrum hætti en nauðungarsölu. Það gæti einfaldað málin og kannski liðkað fyrir ef hægt væri að vera með makaskipti eða eignast íbúðir með einhverjum öðrum aðgerðum. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni þekki ég það ekki og þess vegna velti ég því fyrir mér hver umræðan hafi verið í nefndinni um þau mál.