140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[15:35]
Horfa

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Lúðvíki Geirssyni fyrir andsvarið. Það er alveg rétt að munur er á skoðunum margra innan Sjálfstæðisflokksins eins og ég geri ráð fyrir að sé í öðrum flokkum, ekki endilega bara í þessu máli heldur nokkrum öðrum.

Það er alveg rétt, ég talaði fyrir því þó að ég segði jafnframt í ræðu minni að í prinsippinu í hinum fullkomna heimi væri það eðlilegt að viðskiptabankar sinntu þessum markaði, frjáls samkeppni væri, það væri eðlilegast. Það sem ég gagnrýndi líka í ræðu minni var að nokkrir hv. þingmenn hafa jafnvel verið að stilla því hér upp að þetta yrði að vera félagssjóður, mér finnst ekki að íbúðarhúsnæði á landsbyggðinni eiga að falla undir það. Einhvern veginn þarf að bregðast við því.

Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni hef ég kynnt mér þetta mál, þær umræður sem hafa átt sér stað hér í þinginu og þær umsagnir sem voru sendar inn og hef hlustað, eins og hv. þm. Lúðvík Geirsson, á þær ræður sem fluttar hafa verið eins og ég hef komist til að gera.

Það er náttúrlega mín skoðun að Íbúðalánasjóð verður að reka í einhverri mynd. En hvort hægt væri að ganga lengra varðandi ESA, sumir hv. þingmenn halda því fram, ég verð að viðurkenna að ég þekki málið ekki svo „grundigt“ að ég geti svarað því alveg hér og nú hvort mér finnist nógu langt gengið. Mér hafa hugnast þau vinnubrögð í gegnum tíðina að þegar slíkar ábendingar koma verði brugðist við þeim eins og kostur er og eins langt og mögulegt er að fara. En eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði í andsvari við mig í fyrri ræðu þá væri ekki tími til þess að þessu sinni.