140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[15:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Lúðvík Geirsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að Alþingi gefi sér tíma innan um öll þau önnur stóru mál sem hér eru til umræðu að ræða húsnæðismálin vítt og breitt. Ég held að þessi umræða hafi verið ágæt að því leyti vegna þess að víða hefur verið komið við í umræðunni.

Ég vil gera mér vonir um að farið sé að líða að lokum í umræðunni, við förum að sjá fyrir endann á henni og málið komi til atkvæðagreiðslu í þinginu. Ég vil einmitt fagna þeim sjónarmiðum sem hér hafa þó verið áberandi og komið fram hjá fulltrúum allra flokka að rétt sé að horfa til athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA á þann máta að við setjum okkur skýrari ramma í kringum það lánafyrirkomulag og það verkskipulag sem Íbúðalánasjóður hefur starfað eftir, settur sé rammi varðandi hámarkslán, settur sé rammi varðandi hæstu viðmið um fasteignamat eigna sem er verið að lána til og hámark sé á hlutfalli lána, bundið þá við 80% eins og sett er inn í rammann núna. Þarna er verið að mæta þeim athugasemdum af hógværð án þess að raska í raun og veru því skipulagi og því fyrirkomulagi sem hefur verið og góð sátt hefur verið um í samfélaginu til langs tíma að tryggja landsmönnum öllum, hvar svo sem þeir búa, tækifæri og möguleika til að geta fengið lán á hagstæðum kjörum til að koma þaki yfir höfuðið.