140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[15:46]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Vegna þeirrar umræðu sem hér hefur orðið um hlutverk Íbúðalánasjóðs og þá spurningu hvort það sé æskilegt að sjóðurinn verði fyrst og fremst nýttur til þess að veita lán til íbúðakaupa á landsbyggðinni sagði ég það í minni fyrri ræðu hér að það mætti ekkert horfa fram hjá því, og það er heldur ekki hægt, að á höfuðborgarsvæðinu, í Reykjavík og byggðunum hér í kring, býr líka fjöldi efnalítils fólks sem á litla möguleika til að fjármagna íbúðakaup í gegnum bankakerfið. Ég tel að það mundi í það minnsta grafa mjög undan hlutverki sjóðsins ef það ætti eingöngu að líta svo á eða ef menn kæmust að þeirri niðurstöðu að hann ætti einungis að veita aðstoð við íbúðakaup utan höfuðborgarsvæðisins. Ég tel að óháð því hvar á landinu menn búa sé hugsunin að baki sjóðnum sú að gera sem flestum kleift að kaupa eigið íbúðarhúsnæði.

Auðvitað eru mörk á því hversu langt menn geta gengið í þá áttina og það skiptir líka máli hvernig þessum málum er komið fyrir. Það er hægt, kannski samt ekki ástæða til að rifja það upp að þessu sinni, að koma þessum málum þannig fyrir að sá kostnaður sem fellur á ríkið sé ekki í hlutfalli við það gagn sem íbúar landsins hafa af sjóðnum. Það þarf að tryggja að sá kostnaður sem við leggjum á skattborgarana til að ná fram þessu markmiði sé sem minnstur, að fyrirkomulag þessara mála sé þannig að það sé tryggt að sjóðurinn standi undir sér sem best og að sem minnstir fjármunir fari til spillis, ef svo má að orði komast.

Við þá sem hafa efasemdir um fyrirkomulag Íbúðalánasjóðs segi ég að ég tel að menn geti haft uppi vel rökstuddar athugasemdir hvað varðar núverandi fyrirkomulag og það fyrirkomulag sem við höfum búið við þó að menn geti síðan verið sammála um það meginmarkmið að það eigi að koma þannig málum fyrir að sem flestir eigi möguleika á að kaupa eigið húsnæði. Það er að mínu mati, virðulegi forseti, mikið til vinnandi að íbúðarhúsnæði sé í einkaeigu, sé sem mest í eigu þeirra sem búa í húsunum, þ.e. að menn eigi sitt húsnæði. Þannig held ég að samfélaginu farnist betur en ef mikill meiri hluti er á leigumarkaði.

Þær breytingar sem hér stendur til að gera eiga rót sína að rekja til athugasemda sem hafa komið fram um stuðning íslenska ríkisins við Íbúðalánasjóð og hvernig það samrýmist reglunum um Evrópska efnahagssvæðið. Ég ítreka þá skoðun mína að ég tel takmörk fyrir því hvað hægt er að sætta sig við mikil afskipti af jafnpólitísku máli og því hvernig við komum fyrir í okkar samfélagi stuðningi við það að einstaklingarnir geti keypt sér eigið húsnæði. Það hlýtur að vera á forræði hvers ríkis, óháð samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, hvort menn kjósa að styðja við íbúðakaup almennings með þeim hætti sem við höfum gert eða ekki, láta þannig bankakerfinu það alfarið eftir. Niðurstaða okkar hingað til hefur verið sú að við höfum viljað fara blandaða leið. Bankarnir eru á þessum markaði eins og þeir telja sér henta og ekki er hægt að skikka þá til neinna hluta til eða frá nema að sýna ábyrgð í rekstri hvað varðar lán til íbúðakaupa. Síðan er það val sem er stjórnmálalegs eðlis, sem við íbúarnir getum kosið um, ef við viljum hafa þannig kerfi hjá okkur að hægt sé að fá aðstoð með þeim hætti sem felst augljóslega í lánveitingum Íbúðalánasjóðs.

Það væri illt að þurfa að sæta því að það væri hægt að þrengja þannig hlutverk Íbúðalánasjóðs (Forseti hringir.) að það verði mjög þröng skilgreining á félagslegri aðstoð eins og sumir hafa lagt upp, í það minnsta eins og við höfum séð koma frá Eftirlitsstofnun EFTA.