140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[16:02]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil — get ég fengið þögn í salinn, frú forseti?

(Forseti (ÞBack): Einn fund í salnum.)

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu um húsnæðismál og það frumvarp sem við ræðum. Ég fagna því sérstaklega að hv. þingmaður lýsi yfir stuðningi við breytingartillögu hv. þm. Eyglóar Harðardóttur við málið eins og gerð er grein fyrir í minnihlutaáliti hennar um málið. Ég held að gríðarlega mikilvægt sé að breytingartillaga hv. þm. Eyglóar Harðardóttur nái fram að ganga vegna þess að ég held að mikilvægt sé að skilja betur á milli þess leigufélags sem fyrirhugað er að stofna og síðan starfsemi Íbúðalánasjóðs. Bent er á það í minnihlutaáliti hv. þingmanns og dregin upp helstu rök fyrir því að skilja þarna á milli.

Í minnihlutaáliti hv. þm. Eyglóar Harðardóttur fyrir hönd Framsóknarflokksins kemur einnig fram sú afstaða að Íbúðalánasjóður gegni algjöru lykilhlutverki á íslenskum húsnæðislánamarkaði. Við mótun lagaumhverfis um Íbúðalánasjóð eigum við að taka mið af því.

Maður hefur heyrt það í umræðunni að skiptar skoðanir virðast vera um þetta mál innan Sjálfstæðisflokksins. Hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði að við ættum að drífa í því að selja Íbúðalánasjóð. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefur ekki tekið undir þau sjónarmið.

Nú langar mig að spyrja hv. þm. Jón Gunnarsson hvort hann sé sammála því sem kemur fram í minnihlutaáliti Eyglóar Harðardóttur um að Íbúðalánasjóður gegni lykilhlutverki á íslenskum húsnæðislánamarkaði og hvorum hópnum (Forseti hringir.) hv. þingmaður tilheyri innan Sjálfstæðisflokksins varðandi framtíðarstefnu Íbúðalánasjóðs.