140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

vinnustaðanámssjóður.

765. mál
[16:19]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Hv. framsögumaður nefndarinnar, Björgvin G. Sigurðsson, mælti fyrir þessu nefndaráliti hér á laugardaginn og var umræðu frestað eftir að hann hafði lokið máli sínu. Mig langar því til að hafa nokkur orð um þetta mál sem ég tel vera af hinu góða.

Hér er verið að leggja til að stofna vinnustaðanámssjóð sem mun væntanlega virka. Er þar með skapaður fjárhagslegur hvati fyrirtækja til þess að vinna í samstarfi við skóla og taka við nemendum sem eru í starfsnámi og eru þá í ýmsum iðngreinum eins og rafvirkjun, í námi til múrara, í námi til málara o.s.frv. þannig að þeir fái þjálfun á vinnustað. Vinnustaðasjóður er fjárhagslegur hvati til fyrirtækjanna og vonandi sjáum við að fyrirtækin verði fúsari til að taka við nemendum og stuðla að því að nemanda sem óskar að fara í starfsnám verði tryggt jafnt hið verklega sem og hið bóklega.

Virðulegur forseti. Nefndin breytti ákveðnum þáttum í frumvarpinu varðandi það hver ætti að halda utan um nemandann í starfsnáminu þegar hann er á samningi sínum við fyrirtækið. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir tvíhliða samningi á milli vinnuveitandans eða fyrirtækisins annars vegar og nemandans hins vegar. Nefndin taldi hins vegar, til að tryggja öryggi námsferils nemandans, að skólinn þar sem bóklega námið fer fram og þar sem nemandinn er innritaður væri aðili að þessum samningi. Því er nú um að ræða þríhliða samning, þ.e. skólinn, nemandinn og vinnustaðurinn. Með því að nefndin var samhljóða í að breyta þessu á þennan hátt er fyrst og fremst verið að tryggja öryggi nemandans í því námi sem hann innritar sig í skóla svo að hægt sé að fylgja námsferli hans frá upphafi til enda. Þetta er kannski stærsta breytingin á frumvarpinu. Hún er að mínu mati mjög svo til bóta.

Hér eru líka ákveðnar úthlutunarreglur úr vinnustaðanámssjóði. Það eru þá skólinn, nemandinn og fyrirtækið sem sækja í það ferli sem síðan skilar nemandanum nauðsynlegri þjálfun og menntun á vinnustað og getur líka orðið til að stytta vinnustaðanámið að því gefnu að nemandinn fái kvittað fyrir nauðsynlega þætti í ferilbók.

Þetta er mikil breyting í starfsnámi öllu og af hinu góða. Ég fagna því að hafa fengið að taka þátt í því innan allsherjar- og menntamálanefndar að breyta þessu á þennan veg. Ég ítreka það sem ég hef margoft sagt í þessari stuttu ræðu að fyrst og síðast hafði nefndin í huga að öryggi í námsferli nemandans væri tryggt. Þess vegna er lagt til að skólinn sé hluti af þessum samningi og að í stað tvíhliða samnings komi þríhliða samningur. Það er nemandanum til hagsbóta. Það tryggir öryggi. Ég fagna framkominni tillögu þessarar nefndar sem er í þessa veru. Ég vona að þingið og þingheimur veiti þessu verkefni og þessu frumvarpi til laga um vinnustaðanámssjóð brautargengi.