140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

vinnustaðanámssjóður.

765. mál
[16:24]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég tek undir þau orð sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir lét falla um það mikilvæga frumvarp sem við ræðum, um vinnustaðanámssjóðinn. Hún fór ágætlega yfir þær breytingar sem það felur í sér í tengslum við þjálfunarsamningana, starfssamningana, vinnustaðasamningana sem þarf að gera, og í raun þær breytingar sem við í allsherjar- og menntamálanefnd lögðum til á frumvarpinu.

Ég vil sérstaklega draga það fram að vinnan í nefndinni var afar góð. Hún var að mínu mati skilvirk þó að ég segi sjálf frá. Við fórum mjög ítarlega yfir allar efnislegar athugasemdir sem bárust því að málið er brýnt og mikilvægt. Vinnubrögðin voru að mínu mati til fyrirmyndar og í raun má líka segja það um annað frumvarp sem ég tel að hafi tekið stórstígum breytingum til batnaðar í meðförum nefndarinnar, frumvarp sem við höfum áður rætt en það er frumvarp um háskólann sem við gjörbyltum, meðal annars vegna eindreginna ábendinga frá háskólasamfélaginu. Það var að mínu mati dæmi um góð vinnubrögð. Það fer ekki alltaf hátt innan þingsins þegar vel er unnið en þess ber að geta sem vel er gert. Það er kannski umhugsunarefni að fela þeim sem eru lagnari við að ná samningum að ganga til þeirra verka frekar en þeim sem eiga að ná samningum alla daga og gengur það illa. Það er önnur saga.

Ég set fram ákveðna gagnrýni á lögin um vinnustaðanámssjóð. Sem betur fer gefst okkur loksins tækifæri til að ræða þetta frumvarp. Þó fyrr hefði verið, segi ég, eftir umfangsmikla og áralanga vinnu allra stjórnmálaflokka — ég ætla ekkert að draga einn út umfram annan. Sú vinna hafði það að markmiði að auka skilvirkni á milli skólastiga og efla ekki síst iðn- og starfsnám. Sérstakar nefndir með fulltrúum allra flokka settu ákveðnar tillögur niður — mig minnir á árinu 2005 og 2006 — sem síðan hlutu brautargengi í lögum um framhaldsskóla. Þá lá alveg ljóst fyrir að stærsta og mikilvægasta skrefið í framhaldi af samþykkt laga árið 2008 sem áttu að koma til kastanna 2009 — biðu vinstri stjórnarinnar sem þá tók við völdum — var að koma á fyrirkomulagi um vinnustaðanámssjóð af því að það er einn helsti lykillinn að því að efla iðn- og starfsnám, helsti lykillinn að því að fjölga í iðn- og starfsnámi, halda betur utan um þetta, eitthvað sem við höfum öll rætt svo oft og vel og lengi, t.d. í ræðum á 17. júní sem var í gær.

Um leið og ég hvet þingheim til að taka undir með okkur í allsherjar- og menntamálanefnd í þessu máli vil ég segja að mér finnst sárt að horfa upp á þau þrjú ár sem farið hafa til spillis hvað varðar vinnustaðanámssjóðinn þegar maður horfir á hinn bóginn á forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í öllum öðrum málum. Við bendum á það í nefndinni að það er afar varlega áætlað að gert verði ráð fyrir 150 milljónum á ári í vinnustaðanámssjóðinn. Það gildir eingöngu fyrir 500 nemendur á ári.

Ég er sannfærð um að segja eigi já við þessu frumvarpi og segja já við því að við þurfum að forgangsraða fjármagni í iðn- og starfsnám. Ég er hins vegar alveg jafnsannfærð um að segja nei við þeirri forgangsröðun sem ríkisstjórnin hefur sett fram í hverju málinu á fætur öðru. Nefna má 25 milljarða í SpKef, alla þá fjármuni sem farið hafa í breytingu á Stjórnarráðinu. Nefna má ýmis málefni sem verið er að reyna að ná í gegn til að tryggja fjármagn í gæluverkefni ríkisstjórnarinnar á kosningaári, ekkert annað en kosningavíxill.

Ég spyr: Af hverju kom þetta frumvarp ekki fyrr fram? (Gripið fram í: Rétt.) Það voru allir sammála um að þetta væri brýnt verkefni. Þetta væri eitt af þeim mikilvægu tækjum sem við þyrftum til að efla iðn- og starfsnám. Ég vil með þessari ræðu minni undirstrika það að mér finnst sárt að horfa á þau þrjú ár sem hafa farið til spillis vegna verklags ríkisstjórnarinnar í þeim málum sem hafa komið fyrir þingið. En það ber að draga fram það sem vel er gert og því vil ég þakka fyrir það að þetta mál skuli þó vera komið fram í þinginu. Betra er seint en aldrei. Ég vil jafnframt undirstrika að það var afar ánægjulegt að taka þátt í starfi nefndarinnar.

Við verðum líka að átta okkur á því að það er krafa iðnaðarins og fyrirtækjanna að fá meira af iðn- og starfsmenntuðu fólki. Það er skiljanleg krafa og hefur verið lengi. En boltinn er að vissu leyti úti í atvinnulífinu líka. Atvinnulífið getur ekki skýlt sér á bak við það að stjórnvöld hvers tíma stuðli ekki að því að iðn- og starfsmenntuðu fólki fjölgi nægilega mikið. Fyrirtækin hafa sjálf aðgang að starfsgreinaráðunum. Atvinnulífið hefur sína fulltrúa í starfsgreinaráðunum. Atvinnulífið mun koma að þessum sjóði. Atvinnulífinu var beinlínis tryggð eignaraðild að ákveðnum skólum í landinu. Það á við um Háskólann í Reykjavík sem hafði það að markmiði, með því að sameinast Tækniháskóla Íslands, að efla tækni- og iðnmenntun. Þar hefur atvinnulífið beinan aðgang.

Það sama á við um tilraunaverkefnið sem við fórum af stað með þegar við stofnuðum stærsta iðn- og starfsmenntaskóla landsins sem er Tækniskóli Íslands en hann varð til með sameiningu Iðnskólans í Reykjavík og Fjöltækniskóla Íslands. Þar er atvinnulífið líka með puttann á púlsinum. Það verður þá líka að notfæra sér þá möguleika sem það hefur, og axla þá ábyrgð með stjórnvöldum, að fjölga iðn- og starfsmenntuðu fólki. Það er ekki nóg að benda bara á menntamálaráðherra hvers tíma.

Þegar ég segi það þá skiptir engu máli í hvaða flokki menntamálaráðherra hverju sinni er — þó að ég vilji að sjálfsögðu alltaf sjá sjálfstæðismenn undir þeirri skikkju. En ég er sem sagt líka að bera blak af núverandi menntamálaráðherra sem hefur með þessu frumvarpi, þó það sé seint fram komið, stigið enn eitt mikilvægt skref til eflingar iðn- og starfsnámi. Það er því þýðingarmikið að allir átti sig á mikilvægu hlutverki sínu þegar kemur að því að efla þessar greinar. Hér er tæki til þess að við förum saman í þá vegferð. Það skulum við nýta. Ég hvet þingheim til að samþykkja þetta mál, þetta er gott mál.