140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

vinnustaðanámssjóður.

765. mál
[16:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Í sjálfu sér kom það ekki sérstaklega til umræðu en við hljótum að benda á þá staðreynd engu að síður að við þurfum fagmenntað fólk í alla geira samfélagsins. Verslun og þjónusta er ekki síst stór partur af atvinnulífinu og hluti af því að byggja og koma upp hagvexti hér á landi. Við fórum ekki beinlínis í það að eyrnamerkja þessa verslunarþjónustu.

Við sjáum líka að ákveðnir skólar hafa í ríkari mæli farið í það að koma upp prófi og veita fólki ákveðna viðurkenningu áður en það tekur stúdentspróf, það eru ekki allir í dag sem klára stúdentspróf. Meira að segja er hluti af því, reyndar er það kannski annað óskylt mál en samt skylt þessu, þ.e. lengd námstíma til stúdentsprófs almennt.

Við reyndum meðan við vorum í stjórn, ég veit að núverandi ríkisstjórn leggur líka áherslu á það, að fjölga þeim réttindum sem fólk getur aflað sér innan framhaldsskólans, hvort sem það er innan iðnskólanna eða annarra framhaldsskóla, þar með talið í verslun og þeirri grunnþekkingu sem menn þurfa að hafa á verslun og þjónustu, hvort sem það tengist aðgangi að bókhaldi eða því að kunna að afgreiða í verslun eða fleiru sem tengist versluninni sem slíkri. En vinnustaðanámssjóðurinn er ekki eyrnamerktur fyrirtækjum í verslun per se.