140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[16:50]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er komin hingað upp til þess að lýsa því yfir að ég mun styðja báðar þessar breytingartillögur. Það er kominn tími til, eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson gat um í ræðu sinni, að Alþingi fari að hygla sjálfseignarforminu sem er á sparisjóðunum. Það er ákveðin ástæða fyrir því að sparisjóðir eru sjálfseignarstofnanir. Ástæðan er sú að í stað þess að láta hagnaðinn af starfseminni renna til eigendanna var ætlunin að nota hagnaðinn til þess að lækka útlánavexti. Á fjármálamörkuðum ríkir mikil fákeppni. Fákeppni skapar fyrirtækjum á slíkum markaði mikinn hagnað. Þess vegna er mikilvægt að tryggja að á fákeppnismarkaði séu sjálfseignarstofnanir sem beini hagnaðinum til neytenda, til almennings. Það var einmitt markmið sparisjóðanna.

Frú forseti. Ég er þó ansi hrædd um að ekki dugi til að samþykkja þessar tvær breytingartillögur til að tryggja rekstrargrundvöll sparisjóðanna. Ástæðan er sú að ég óttast að hákarlarnir, eða hinir viðskiptabankanir, muni sennilega gleypa þá sparisjóði sem verður breytt í hlutafélög eða ákveða að fara yfir í hlutafélagaformið, áður en nefndin sem gert er ráð fyrir að skipuð verði til þess að meta áhrif af þessum lögum sem við ætlum að fara að samþykkja, lýkur störfum. (Forseti hringir.) Þá er of seint að styrkja sparisjóðakerfið í þessu landi.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála (Forseti hringir.) mér um þessa áhættu.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biðst velvirðingar á því að klukkan í borðinu virkar ekki sem skyldi, en tímamæling fer fram í forsetastóli.)