140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[16:52]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er hárrétt sem hv. þingmaður bendir á um eðlismuninn á rekstrarfyrirkomulagi sparisjóðanna og stóru bankanna þriggja. Hugsjón sparisjóðakerfisins er sú að setja fjármuni í miklu meira mæli til samfélagslegra mikilvægra verkefna á starfssvæðum sparisjóðanna og það hafa sparisjóðirnir gert á undangengnum árum. Nú getur vel verið að menn vilji almennt að þetta rekstrarfyrirkomulag líði undir lok. Það getur vel verið að menn séu á þeirri skoðun, en ég og hv. þingmaður erum sannarlega ekki á þeirri skoðun.

Það er mjög hættulegt ef menn ætla að fljóta sofandi að feigðarósi og gera ekki neitt til þess að hygla þessu rekstrarformi. Þetta form hefur skilað mörgum samfélögum vítt og breitt um landið öflugu menningarlífi, íþróttalífi og fleira mætti nefna. Það er allt önnur hugsjón á bak við rekstrarfyrirkomulag sparisjóðanna þegar kemur að hinni samfélagslegu nálgun. Hún er miklu sterkari þar en hjá einkahlutafélögunum.

Ég spyr hv. þingmann hvaða leiðir hún sjái til að hygla frekar sparisjóðakerfinu. Ég bendi reyndar á að í breytingartillögunni er lagt til að ráðherra skipi þriggja manna hóp sérfræðinga sem fái frekar knappan tíma, fram á haustið, til að meta hvaða leiðir séu færar til að efla sjálfseignarformið sem er á sparisjóðunum. Megum við ekki vænta þess, verði sú tillaga samþykkt, að við fáum í hendur breytingartillögur sem munu efla og styrkja sparisjóðina í landinu?