140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[16:57]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir bendir á varðandi stimpilgjöld, það er náttúrlega með ólíkindum að ríkið skuli ætla að hagnast á því þegar einstaklingar skipta um bankaútibú eða um bankastofnun og lagður sé sérstakur skattur á það ef maður vill færa viðskipti sín frá einhverjum af stóru viðskiptabönkunum þremur yfir í lítinn sparisjóð. Það er alveg með ólíkindum. Þess vegna lögðum við framsóknarmenn fram tillögur um að afnema þessi óréttmætu gjöld sem koma í mörgum tilvikum í veg fyrir að þessi markaður virki sem skyldi. Þessi skattlagning ríkisins hamlar því að menn séu dálítið kvikir á þessum markaði og skipti um viðskiptabanka.

Í annan stað vil ég líka nefna, af því hv. þingmaður minntist á sérstöðu sparisjóðanna og þá hugsjón sem starfsemi þeirra er grundvölluð á, að það sýndi sig best í aðdraganda hrunsins þegar stóru bankarnir voru mjög fyrirferðarmiklir á markaðnum að þeir vildu bara taka bestu bitana. Þeir lánuðu í mjög litlum mæli til svokallaðra kaldra svæða þar sem fólksfækkun hefur verið viðvarandi, því miður. Það var varla hægt að sjá að það væri lánað til sveitarfélaga eins og á Vestfjörðum, norðausturhorni landsins eða suðausturhorni landsins. Þá komu sparisjóðirnir inn í samstarfi við Íbúðalánasjóð og veittu fólki lán til þess að kaupa sér húsnæði á þessum svæðum. Þar birtist sú grundvallarhugsjón að halda tryggð við starfssvæði sitt og það fólk sem skiptir við sjóðinn. Þetta er eitthvað sem gleymdist í aðdraganda hrunsins. Mér finnst mjög slæmt að við skulum horfa upp á það árið 2012 að menn ætli að hverfa aftur til sömu hugmyndafræði og ríkti í aðdraganda hrunsins og hleypa (Forseti hringir.) þessum þremur bönkum í það að eignast alla sparisjóði í landinu. Guð forði okkur frá því.