140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:12]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er aftur komin á dagskrá Alþingis sú beiðni að Alþingi samþykki að við Íslendingar tökum á móti aðlögunarstyrkjum frá Evrópusambandinu til að aðlaga stofnanakerfið og stjórnsýsluna að Evrópusambandinu í aðlögunarferlinu. Það er eitt að hafa gert þau mistök að hafa sótt um aðild að Evrópusambandinu. Þegar Alþingi sendi inn beiðni um aðild á sínum tíma og samþykkti með eins naumum meiri hluta og hægt er að samþykkja mál til þess að það komist áfram, gerðist það við þær aðstæður að ákveðinn hópur þingmanna lýsti sig samtímis afar andvígan inngöngu í Evrópusambandið og í raun andvígan því ferli sem væri verið að ráðast í en samþykkti þó og greiddi atkvæði með umsókninni. Ef hefði verið tekið mark á … Frú forseti, ég er ekki í andsvari, ég er í ræðu.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill benda hv. þingmann á að hann átti fimm mínútna ræðu og hann á nú eftir þrjár mínútur og 43 sekúndur.)

Þá, virðulegur forseti, verð ég bara að fara aftur upp í ræðu, ég hélt að ég ætti hér aðra góða ræðu.

Hér er verið að leggja út í það að Alþingi samþykki að taka við þessum mútum frá Evrópusambandinu. Þetta er til næstu þriggja, fjögurra ára. Þetta byggist á því að gerðir séu samningar við Evrópusambandið til næstu þriggja, fjögurra ára um að taka á móti 4–5 milljörðum kr. beint til þessara aðgerða.

Frú forseti. Eitt er að hafa sótt um og ætla að sækja það mál á sjálfstæðum íslenskum forsendum þar sem Ísland væri jafngildur aðili á móti Evrópusambandinu í þeim samningum og svo hitt að gera eins og hér er lagt til, að Alþingi beygi sig í duftið og þiggi mútufé til að greiða fyrir aðlögun og vinnu við að ganga í Evrópusambandið og ganga til þessara samninga. Það finnst mér mjög aumt.

Ég vil minna á að flokkur minn, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, er í fyrsta lagi andvígur inngöngu í Evrópusambandið, í öðru lagi fyrir síðustu kosningar lögðum við áherslu á það, a.m.k. sá sem hér stendur, að flokkurinn mundi ekki beita sér fyrir inngöngu í Evrópusambandið að kosningum loknum. Við það hef ég staðið. Við það stendur líka grasrót flokksins um allt land.

Ég vil líka minna á að flokksráðsfundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafnaði því alfarið að flokkurinn ætti aðild að því að tekið væri við þessum aðlögunarstyrkjum frá Evrópusambandinu, vegna þess að með því væri verið að brjóta freklega gegn sjálfsákvörðunarrétti og sjálfstæði þjóðar til að ganga til samninga á eigin forsendum.

Ég vil minna á þessar samþykktir Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs nú þegar þetta mál kemur hér til afgreiðslu. Ég treysti því að aðrir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og ráðherrar standi við samþykktir flokks síns, standi við það sem þeir voru kosnir til og hafni því að við þiggjum mútufé af hálfu Evrópusambandsins til þess að greiða fyrir aðlögun og inngöngu í sambandið til næstu ára.

Við hv. þm. Atli Gíslason höfum lagt fram tillögu um að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að afturkalla umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Aðildarumsókn að Evrópusambandinu verði ekki endurnýjuð nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu sem staðfestir vilja þjóðarinnar til aðildar.

Það er mjög þversagnarkennt að heyra suma þingmenn tala um að það eigi að flytja hér tillögu um að endurskoða eigi umsóknina um aðild að Evrópusambandinu, ef þeir ætla svo samtímis að styðja samning til næstu ára um að þiggja mútufé af hálfu Evrópusambandsins til þess að greiða fyrir inngöngu. Það gengur ekki upp, frú forseti. Því skora ég á þingheim að hafna þessu mútufé Evrópusambandsins sem hér er verið að leggja til að Ísland þiggi til að greiða fyrir aðlögun og inngöngu í sambandið. Ég skora á þingmenn (Forseti hringir.) að greiða atkvæði gegn því.