140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[17:18]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þetta mál er í sjálfu sér sprottið af sama meiði og mál sem var rætt hér áðan, um hina svokölluðu IPA-styrki, aðlögunarstyrki að Evrópusambandinu. Velkist einhver í vafa um hvort um sé að ræða aðlögunarfé eða ekki? Sumir reyna að blekkja sjálfa sig og þjóðina með því að halda því fram að þetta séu ekki aðlögunarstyrkir. Í skýrslu utanríkisráðherra frá því í vetur, um til hvers verið sé að þiggja þessa styrki Evrópusambandsins, stendur skýrum stöfum á bls. 35, með leyfi forseta:

„Á árinu 2012 verður áhersla lögð á undirbúning fyrir þátttöku í stoðkerfissjóðum og á árinu 2013 á uppbyggingu stofnana.“

Nú þegar er því búið að gera ráð fyrir hvernig þessum fjármunum verður varið til næstu ára. Þeim verður varið í að laga stofnanakerfi og innra skipulag Íslands að Evrópusambandinu. Síðan segja einstakir þingmenn að þetta snúist ekkert um aðlögun, þetta séu bara ferðastyrkir eða eitthvað slíkt.

Talandi um ferðastyrki: Það hefur verið mjög kátbroslegt að heyra umræður um að borgarfulltrúa, eða einhverjum nátengdum borgarstjórn Reykjavíkur, hafi orðið það á að ferðast með tilteknu flugfélagi og hafi fengið miðann ókeypis, að það væri brot á siðareglum. Hve margir eru nú á ferð í boði Evrópusambandsins fram og til baka með gistingu og tilheyrandi og hvað er það nú til þess beinlínis að þeir gerist áhangendur þess? Hve mörgum er verið að múta með þessum ferðum? (Gripið fram í.) Siðleysið, frú forseti, nær miklu lengra. Farið var út í þessar viðræður á forsendum Íslendinga sjálfra, þeir áttu að koma sjálfstætt að málum á jafnréttisgrundvelli. En nú fá menn þessa ferðastyrki í ríkum mæli og tilgangurinn er sá að kynna aðildina fyrir þeim.

Frú forseti. Ég vil ítreka það sem ég segi og hef sagt áður: Þessir aðlögunarstyrkir Evrópusambandsins, gullkálfarnir sem dregnir eru inn fyrir landamæri Íslands til að menn geti dansað í kringum þá, eru algjörlega gegn stefnu míns flokks, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og stríða, að því er ég held, gegn sjálfsvitund Íslendinga sem þjóðar. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt að vegna stolts okkar sem sjálfstæðrar þjóðar eigum við að hafna þessum mútustyrkjum Evrópusambandsins.