140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:45]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Sú umræða sem nú sér fyrir endann á hefur staðið um hörmulegt mál sem ríkisstjórnin hefur lagt fram, frumvarp til laga um veiðigjöld. Af mörgu er að taka þegar skoðuð eru þau mál sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram en ég held að þetta sé með þeim verri, eins og við hefur blasað. Það er ástæðan fyrir því að þessi harða umræða hefur staðið yfir í marga daga og er ein lengsta umræða þingsögunnar um einstakt mál. Umræðan hefur auðvitað endurspeglað þau átök sem hafa verið um þessi mál milli annars vegar stjórnarflokkanna og hins vegar stjórnarandstöðunnar sem hefur talað fyrir ábyrgri niðurstöðu í sjávarútvegsmálum en ekki þeirri ofurskattlagningu sem þetta frumvarp fól í sér.

Spurningin er þegar komið er að þessum lokum: Var þessi umræða til einhvers? Skilaði það árangri að við stóðum hér í ræðustól dögum saman til að tala gegn þessu frumvarpi? Svarið er já, það skilaði auðvitað árangri. Það skilaði meðal annars þeim árangri að ríkisstjórnin féll frá ýmsu af því sem stóð í frumvarpinu og hefði að öllu óbreyttu kollsiglt stóran hluta sjávarútvegsins. Það sem meira er þá leiddi umræðan til þess að fiskveiðistjórnarfrumvarpið sjálft, sem var auðvitað aðalskaðvaldurinn í öllu bixinu samanlögðu, liggur núna og er því ljóst mál að áform ríkisstjórnarinnar um gerbreytingu á starfsumhverfi sjávarútvegsins munu ekki ná fram að ganga á þessu kjörtímabili. Það er gríðarlega mikill ávinningur og mun skipta mjög miklu máli fyrir útgerðirnar í landinu, sjávarbyggðirnar og samfélagið allt.

Þegar veiðigjaldafrumvarpið er skoðað er ljóst að það er í rauninni rangnefni að kalla þetta veiðigjöld. Ég talaði stundum um veiðiskatt í þessari umræðu en sennilega er það heldur ekki rétt. Hið rétta hugtak er sjávarútvegsskattur vegna þess að þetta er skattur sem er þeim eiginleikum gæddur að reiknuð er út einhvers konar renta sem þó er ekki renta bæði af veiðum og vinnslu eins fráleitt og það er að ímynda sér að hægt sé að reikna út einhvers konar rentu af vinnslunni. Síðan er skattlagningin með þeim hætti að ekki er um að ræða gjaldtöku til einstakra afmarkaðra hluta, eins og gjöld fela í sér, heldur er um að ræða skatta sem eiga að renna í ríkissjóð og ráðstafa síðan með ýmsum hætti eins og við höfum tekið eftir að farið er að gera áður en þetta frumvarp er orðið að lögum. Útgerðin borgar þetta síðan þótt upphaf skattheimtunnar sé að einhverju leyti í rekstrarafgangi fiskvinnslunnar. Það er því algerlega fráleitt að láta sér detta eitthvað slíkt í hug.

Lagt var af stað með 24 milljarða skattheimtuáform og bara miðað við forsendurnar eins og þær lágu fyrir á síðasta ári sem þekkt var, þ.e. árið 2010. Nú er ég ekki að tala um frumvarpstextann sem var svo vitlaus að hann hefði leitt til 50 milljarða skattlagningar, ég er bara að tala um áformin eins og þau voru kynnt t.d. í athugasemdum með frumvarpinu um 24 milljarða skattheimtu miðað við árið 2010. Það er alveg ljóst mál, hefðu þessi áform gengið eftir miðað við þá þróun sem hefur orðið í sjávarútveginum t.d. með aukningu aflamarksins í þorski og mögulega öðrum tegundum, að þetta hefði ekki orðið 24 milljarðar heldur allmiklu hærri tala. Nú er þó alla vega verið að tala um að helminga þessa tölu sem segir okkur hversu fráleitt málið var í upphafi og sést meðal annars á því að gert var ráð fyrir ef þetta frumvarp næði fram að ganga að það kallaði fram meira en 30 milljarða tap í stærsta viðskiptabanka sjávarútvegsins. Það hefði leitt til þess að 75% krókaaflamarksbátanna hefðu orðið gjaldþrota, helmingurinn í aflamarkinu og þar fram eftir götunum og afleiðingarnar fyrir þjónustuaðila og sveitarfélögin hefðu orðið svo hrikalegar að varla er hægt að hugsa þá hugsun til enda.

Þrátt fyrir þennan árangur og þrátt fyrir að gjaldið sé þó orðið helmingi lægra en ætlunin var í upphafi óttast ég mjög afleiðingarnar. Þessi skattlagning er enn ofurskattlagning. Hún mun hafa afleiðingar í för með sér og ég spái því illu heilli, því miður, að strax á næstu mánuðum munum við sjá afleiðingarnar koma í ljós með ýmsum hætti, t.d. með sameiningu fyrirtækja, með tilflutningi aflaheimilda, með því að skipum sem verða gerð út muni fækka. Allt er þetta gert í boði stjórnarflokkanna. Muni þessi spá mín rætast, sem ég vona svo sannarlega að hún geri ekki, þá segi ég: Þetta er að gerast í boði stjórnarflokkanna.

Auðvitað blasir líka við að allar forsendur gjaldtökunnar voru rangar. Eftir þær breytingartillögur sem gerðar hafa verið er í rauninni verið að tjalda til einnar nætur með þessu frumvarpi. Það er verið að leggja á krónutöluskattlagningu á sjávarútveg til eins árs. Allt sem síðan segir í framhaldinu eru útópískar hugmyndir ríkisstjórnarinnar sem ríkisstjórnin gerir sjálf ekki ráð fyrir að geti gengið upp. Það gerir ríkisstjórnin með því að boða hér breytingartillögur því að þegar eru komnar fram breytingartillögur hjá meiri hluta atvinnuveganefndar og í rauninni búið að boða frekari tillögur í þá veru sem fela það í sér að strax verði farið í að endurskoða þetta í sérstakri veiðigjaldsnefnd sem verður lögfest samkvæmt frumvarpinu og breytingartillögunum. Það er mjög sérkennilegt að fyrst eigi að leggja á veiðiskatt, sjávarútvegsskatt, síðan eigi að skoða hvort þetta gangi einhvern veginn upp og svo er gert ráð fyrir því að breytt verði lögum til að bregðast við. Ef í ljós kemur að skattheimtan verður fyrirtækjunum ofviða er gert ráð fyrir að bregðast þurfi við með sérstökum hætti. Þetta er með öðrum orðum tilraunapólitík og tilraunadýrið í þessu sambandi er sjávarútvegurinn — sjávarútvegurinn er undirstöðuatvinnugrein okkar. Þetta er alvarleg og gersamlega óábyrg tilraunapólitík sem hæstv. ríkisstjórn er að framkvæma og gera sjávarútveginn að eins konar tilraunadýri eða skoða hann í einhvers konar tilraunaglasi þar sem enginn veit í raun afleiðingarnar. Þær ætla menn að skoða þegar lengra er komið með þessari veiðigjaldsnefnd.

Bent hefur verið á margs konar villur í þessu máli. Ég ætla ekki að rekja það sem við höfum farið yfir nú þegar. Til dæmis hafa komið ábendingar um að þetta frumvarp byggi á hugmyndafræði Hagstofunnar sem var upphaflega lögð fram á allt öðrum grundvelli, aldrei hugsuð sem andlag einhverrar skattlagningar. Gert var ráð fyrir því í módeli Hagstofunnar að ávöxtunarkrafan yrði upp á um það bil 6%. Ríkisstjórnin kom hingað og stærði sig af því að gert væri ráð fyrir mun ríkulegri ávöxtunarkröfu í sjávarútveginum, miðað við breytingartillögu meiri hlutans yrði hún 8%, en gleymdi að nefna eitt: Í tölum Hagstofunnar eru ekki afskriftir en hins vegar er gert ráð fyrir afskriftum í breytingartillögunum og frumvarpinu sem lækka í raun ávöxtunarkröfuna niður í sáralítið sem ekkert. Það er enn ein blekkingin í þessu. Þá er bara svarað: Við sjáum fyrir þessu einhvers staðar annars staðar. Svona er frumvarpið allt út í gegn, löðrandi í innri mótsögnum og vitleysu.

Það sem þetta frumvarp mun síðan hafa í för með sér, og best að menn átti sig strax á því, er að það mun með frekari kostnaði fyrir sjávarútveginn stuðla að áframhaldandi lágu gengi íslensku krónunnar. Þegar við skoðum öll áformin sem uppi eru um hvernig eigi að nýta þessa peninga og þær tölur sem menn ætla sér að fá út úr þessu gjaldi, 20–30 milljarða á ári, þá er forsendan greinilega sú að veiðigjaldið muni stuðla að áframhaldandi lækkun íslensku krónunnar og halda gengisstiginu niðri.

Alþýðusamband Íslands hefur bent á að ef gengi krónunnar styrktist t.d. um 20%, sem er forsenda kjarasamninga, muni afraksturinn af veiðigjaldinu lækka um þriðjung, fara úr 12–15 milljörðum niður um 4–5 milljarða kr. Þar með er allt þetta sjónarspil, sem hefur verið sett á svið í tengslum við veiðigjaldið, búið þar sem veiðigjöldin eiga nánast að standa undir öllum heimsins þörfum, vegum, jarðgöngum, háskólapólitíkinni og ég veit ekki hvað og hvað. Ástæðan fyrir því að þetta var gert var auðvitað sú að þegar ríkisstjórnarflokkunum var orðið ljóst hversu óvinsælt þetta frumvarp var, hversu óvinsæll þessi sjávarútvegsskattur var þá var ákveðið að setja hann í súkkulaðihjúp og súkkulaðihjúpurinn er hin svokallaða framkvæmdaráætlun sem við sjáum stað í samgönguáætluninni. Súkkulaðihjúpurinn átti að gera það að verkum að menn mundu reyna að kyngja þeim bitra sannleika sem þessi sjávarútvegsskattur er en þeim verður ekki kápan úr því klæðinu. Það sjá allir í gegnum þessa sýndarmennsku sem hefur (Forseti hringir.) verið í kringum þessi sjávarútvegsfrumvörp og sjávarútvegsskattinn (Forseti hringir.) sem hæstv. ríkisstjórn ber ábyrgð á.