140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:55]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Komin er einhver niðurstaða í þessi stóru ágreiningsmál í þinginu og mun þingstörfum senn ljúka. Það er nauðsynlegt að rifja upp með hvað var lagt af stað af hálfu ríkisstjórnarflokkanna.

Í þessum veiðiskatti voru fyrstu hugmyndir að taka 25 milljarða út úr greininni sem er um það bil tuttuguföldun á skattheimtu greinarinnar umfram aðrar greinar í atvinnulífinu, tuttuguföldun á mjög skömmum tíma. Það geta allir sett sig í þær aðstæður hvort sem þeir eru í rekstri eða bara einstaklingar — að stjórnvöldum skuli detta í hug að það skapist allt í einu, á einni nóttu, grunnur til að auka skattheimtu tuttugufalt. Þessu hefur stjórnarandstaðan mótmælt af mikilli hörku. Það hafa reyndar ekki bara verið við heldur hefur málflutningur okkar verið studdur af öllum þeim athugasemdum sem komið hafa frá hagsmunaaðilum, hvort sem þær eru frá stéttarfélögum, frá þeim sem starfa í greininni eða samtökum vinnuveitenda auk allra annarra, sérfræðinga, endurskoðenda og þeirra sem fengnir hafa verið til að tjá sig um þessi mál.

Þetta veiðiskattafrumvarp og þær breytingar sem átti að gera á fiskveiðistjórnarkerfinu hefðu gengið af íslenskum sjávarútvegi dauðum í þeirri mynd sem hann er nú. Það er ekkert flóknara, það hefði gengið af honum dauðum. Hver ber ábyrgð á því að leggja svona fyrir þjóðina og fyrir þingið? Hver getur látið sér detta það í hug að fara svona fram gagnvart undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar með öllum þeim hættumerkjum sem við blasa? Það er auðvitað galið fólk, virðulegi forseti. Það er fólk sem er blindað af einhverju allt öðru en raunveruleikanum. Það horfir ekki á raunveruleikann. Það kristallast betur og betur fyrir þingi og þjóð að sú ríkisstjórn sem situr í landinu sér ekki raunveruleikann, hún sér ekki hina raunverulegu mynd þegar hún reynir að draga upp tálmyndir og bjartsýnismyndir um að hér sé allt í góðu lagi, hér sé allt í mikilli uppsveiflu og helst sé tekið eftir því í útlöndum. Þetta fólk er veruleikafirrt, það er ekki hægt að segja annað.

Við sjáum hér sennilega eina lélegustu afurð ríkisstjórnarinnar birtast í þessum frumvörpum. Hver hefðu áhrifin orðið og hver verða áhrifin? Þrátt fyrir að búið sé með baráttu stjórnarandstöðunnar á þingi að fá þessu fiskveiðistjórnarfrumvarpi og umfjöllun um það frestað fram á næsta vetur þá stendur samt sem áður eftir fyrirhuguð skattlagning á íslenskan sjávarútveg upp á 12,7–13,8 milljarða. Það er um tíföldun á skattlagningu á þessum skattstofni á örfáum missirum. Það er gert án þess að fyrir liggi úttekt á því hvaða áhrif það hefur á undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. (Gripið fram í.)

Það er blásið upp að hagnaðurinn sé svo mikill í greininni. (Gripið fram í.) Það er vissulega gott. Afkoman er — nú er ég með orðið, hv. þm. Mörður Árnason, og þú ættir að fara heim til þín á meðan.

Nú er það blásið upp að afkoman í sjávarútvegi sé svo sterk um þessar mundir. Það er alveg rétt, afkoma í sjávarútvegi er mjög góð núna og miklu betri en undanfarin ár, sem betur fer. Í hvað hafa fjármunirnir verið notaðir á því þriggja ára tímabili sem um er að ræða? Sjávarútvegurinn hefur notað þá til að greiða niður skuldir sem er þjóðhagslega mjög hagkvæmt. Hann hefur haldið að sér höndum í öllum fjárfestingum vegna þeirrar óvissu sem er í greininni og notað tímann til að greiða niður erlendar skuldir. Það er hagkvæmt, en okkur vantar fjárfestingarnar til að efla íslenskt atvinnulíf og auka verðmætasköpun og útflutningsverðmæti í greininni. Um leið og við getum komið einhverjum stöðugleika, einhverri öruggri framtíðarsýn til greinarinnar þá er komið að því að greinin fari að fjárfesta. Nei, þá á að grípa inn í, virðulegi forseti, og hirða þau góðu ár sem nú koma með mjög óeðlilegri skattlagningu.

Í hvað á skatturinn að fara? Hann á að fara í kosningavíxla ríkisstjórnarinnar. Það á að greiða kosningaloforð sem hafa með mjög ósmekklegum hætti verið lögð fyrir þjóðina á undanförnum vikum. Ef maður lítur á fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar þá á að eyða þessum peningum í að efla Kvikmyndasjóð upp á 1,5 milljarða, verkefnasjóð skapandi greina upp á 750 milljónir, 600 milljónir eiga að fara í netríkið Ísland, 3.850 milljónir í græna hagkerfið, það á að grænka fyrirtæki fyrir 1.500 milljónir, það á að fara í vistvæn innkaup fyrir 600 milljónir og orkuskipti upp á 600 milljónir.

Ég ætla ekki að gera lítið úr þessum verkefnum, virðulegi forseti, læt mér ekki detta það í hug. En þetta eru gæluverkefni. Þetta eru verkefni sem eru ekki brýn þótt þau séu ágæt. Það á að vera allt önnur forgangsröðun.

Það er ekki hægt að komast hjá því að minnast á að í þessari fjárfestingaráætlun á einnig að nota sölu á hlut ríkisins í bönkunum, nokkuð sem er algerlega fráleitt. Það hefur alltaf verið rætt um að þegar ríkið selur hlut sinn í bönkunum verði fjármagnið notað til að greiða niður skuldir ríkisins, þær miklu skuldir sem við þurftum að takast á hendur út af efnahagshruninu. Þeir fjármunir eiga að fara í það og hlutur ríkisins verður seldur þegar það er hagstætt en ekki á þeim tíma sem ríkisstjórninni hentar til að gefa út kosningavíxla. Við eigum eftir að horfa upp á það á næstu vikum og mánuðum þegar ríkisstjórnin fer að gefa þá út.

Hæstv. menntamálaráðherra sagði í umræðunni í síðustu viku: Ef við fáum veiðigjöldin get ég farið að setja meira af peningum í háskólaumhverfið. Svona er búið að lofa þjóðfélagshópum, sveitarfélögum og fólki út um allt land ósmekklegum dúsum ef það bara leggst á sveif með ríkisstjórninni í þessari skattlagningu og þessum áformum hennar. Þetta eru ekkert annað en dulbúnar mútur — verið þið með okkur í þessu og við munum rétta ykkur eitthvað, borga ykkur fyrir stuðninginn. Svona eiga stjórnvöld ekki að haga sér, virðulegi forseti. Það á að gera miklu meiri kröfur til stjórnvalda. Þau eiga að standa undir miklu dýpri og meiri ábyrgð en felst í svo ósmekklegum loforðaflaum. Það er bara ekki þannig með þessa hæstv ríkisstjórn, hún er ekki á hærri stalli en raun ber vitni. Hún er haldin óseðjandi skattafíkn. Þetta snýst um það. Ég er þess fullviss að forustumenn ríkisstjórnarinnar, þar á meðal hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og margir af fylgisveinum þeirra úr ríkisstjórnarflokkunum gera sér fyllilega grein fyrir því að hér er um mjög óeðlilega skattlagningu að ræða og óljóst sé hvort sjávarútvegsfyrirtækin beri hana til lengri tíma, algerlega óvíst, en ljóst að mörg þeirra munu ekki gera það. En skattafíkninni verður að þjónka. Hún verður að fá sitt. Þetta er eins og óseðjandi skrímsli. Því meira sem þú gefur því að éta því hungraðra verður það.

Hvað verður næst? Hvaða hugmyndir koma næst hjá ríkisstjórninni til að seðja skattafíkn sína? Ég get alveg sagt ykkur það, það er farið að heyrast. Það verða aðrar atvinnugreinar og þá ekki síst þær sem eru í uppgangi og gengur vel á þessum tímum, eins og ferðaþjónustan sem nýtir náttúruauðlindir landsins. Nú er farið að tala um að jafnvel sé um ofnýtingu að ræða og næsta sem við munum heyra er að skattleggja þurfi nýtingu ferðaþjónustunnar á auðlindinni. Það kæmi manni ekki á óvart ef núverandi ríkisstjórn fengi að halda áfram óþurftarverkum sínum á þessum vettvangi og á næsta ári mundi hún láta sér detta í hug að hún gæti sótt svona 5 milljarða í ferðaþjónustuna, allt til að setja að eigin sögn í sameiginlega sjóði landsmanna, til að hæstv. menntamálaráðherra geti gefið háskólanum stærri og meiri loforð, af því að hún gengur í salinn, allt til þess að hæstv. forsætisráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra geti lofað fólki ósmekklegum dúsum um allt land.

Nær þetta þeim háleitu markmiðum sem eru sett fram í þessum frumvörpum? Nei, virðulegi forseti. Þetta á að efla byggð og atvinnu um landið. Þvert á móti setur þetta byggðir í mikla óvissu, getur flutt til störf og skapað mikil óþægindi fyrir mörg svæði á landsbyggðinni.

Mun þetta efla nýliðun í sjávarútvegi? Nei, virðulegi forseti. Þetta mun draga úr nýliðun. Þetta mun gera öllu venjulegu fólki sem vill hasla sér völl í sjávarútvegi erfiðara að komast inn í þessa grein.

Mun þetta styrkja lítil (Forseti hringir.) og meðalstór fyrirtæki um landið? Nei, virðulegi forseti. Þetta mun leggja þau mörg hver niður. Þetta mun auka á samþjöppun í greininni. (Forseti hringir.) Þau stóru fá að lifa því að þeir sem eiga mikið fjármagn eru þeir einu sem geta haslað sér völl.

Virðulegi forseti. Við erum að ræða um frumvörp sem eru einhver stærstu (Forseti hringir.) mistök þessarar ríkisstjórnar og einhver stærstu dæmi um mistök sem Alþingi hefur fjallað um.

(Forseti (SIJ): Forseti vill biðja þingmenn um að virða ræðutíma.)