140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:06]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er illt til þess að vita að niðurstaða þessa máls verði sú sem í stefnir, að hér verði lagðar þungar álögur á íslenskan sjávarútveg. Mig langar að gera að umtalsefni eina lykilspurningu sem skiptir að mínu mati verulega miklu máli, hún varðar grundvöll gjaldsins. Talsmenn þessarar skattlagningar hafa ítrekað sagt, bæði úr þessum ræðustóli og á opinberum vettvangi, að nú sé það að gerast í fyrsta sinn að þjóðin fái notið arðs af þessari auðlind. Það eru fullkomin og alger öfugmæli. Það þarf ekki mikla söguþekkingu eða innsæi til að átta sig á því hversu röng sú staðhæfing er.

Íslenska þjóðin þekkir það sjálf hvernig hún braust frá fátækt til bjargálna og til velmegunar vegna þess að auðlindir hafsins skiluðu miklum auði. Menn sáu hins vegar að það fyrirkomulag gekk upp vegna þess að það var þó það mikinn afla að hafa að ekki þurfti að takmarka aðgang manna að auðlindinni. Þegar það var orðið augljóst og óumflýjanlegt að ekki var lengur hægt að koma fyrir fiskveiðunum á Íslandsmiðum með þeim hætti sem gert var varð að grípa til ráðstafana og þá var svokallað aflamarkskerfi tekið upp. Það var einmitt þá sem afraksturinn fór að aukast jafnt og þétt en árið þar á undan hafði verið tap á greininni. Það er því rangt að halda því fram að þjóðin hafi í engu notið afrakstursins af sjávarauðlindinni.

En það gerðist ekki þannig að stór hluti hagnaðarins var tekinn úr sjávarútvegsfyrirtækjunum, stórum jafnt sem smáum, og fluttur í ríkissjóð Íslands. Það er alveg hárrétt, þannig var það ekki og því stendur til að breyta núna. En auðvitað naut þjóðin góðs af því að sjávarútvegsfyrirtækin hættu að vera rekin með tapi eins og verið hafði á árunum áður en kvótakerfið var tekið upp og fór að verða rekið með hagnaði. Það gerði sjávarútvegsfyrirtækjum skylt að greiða hærri laun og það gerði þeim kleift að fjárfesta í nýrri tækni og verða betri stuðningsaðilar fyrir heimabyggðir sínar. Vitanlega hefur þjóðin notið góðs af því að sjávarútvegurinn hefur fjárfest í tækniþróun, í tæknifyrirtækjum sem skapað hafa fjölda Íslendinga ný tækifæri til vel launaðra og spennandi starfa. Þetta eru því öfugmæli, virðulegi forseti.

Mig langar að benda á eitt og er þar á svipuðum slóðum og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson og reyndar líka hv. þm. Jón Gunnarsson sem spurðu: Hvað næst? Hvar kemur skattlagningin næst niður? Það eru auðlindirnar margar? Nú liggur í loftinu yfirlýsing hæstv. forsætisráðherra um að hér þurfi að vera einhver auðlindanýtingarstefna. Væntanlega er það á svipuðum forsendum og við höfum séð koma fram í umræðunni um veiðileyfagjöldin. Hugmyndin er sú að þjóðin eigi allar auðlindirnar og á grundvelli þess eignarhalds geti menn skattlagt eins og ríkinu sýnist, í raun sé ekki um að ræða skatt heldur einhvers konar veiðigjöld.

Virðulegi forseti. Þýðir það það að við eigum til dæmis von á breytingum hvað varðar laxveiðiár? Að lagðar verði sérstakar álögur á grundvelli þess að um einhvers konar þjóðareign sé að ræða? Varla eiga eigendur ánna laxfiskana en þeir hafa vissulega nýtingarréttindi. Og hvað um aðrar auðlindir? Það er vel hægt að halda því fram að mesta auðlind þessarar þjóðar sé mannvitið sjálft, við borgararnir, að það sé hin stóra og mikla auðlind Íslands. Þegar menn eru komnir á þessar slóðir hví skyldu þeir þá mæla gegn því að það sé óeðlilegt að einstakir aðilar hagnist á því að nýta til dæmis kaupgetu þessa fólks? Það væri eðlilegra að verslunin væri í höndum ríkisvaldsins, eins og hópur innan ungliðadeildar Vinstri grænna lagði reyndar til fyrir ekki svo löngu síðan að verslun með matvöru yrði á vegum ríkisins þannig að tryggt væri að afraksturinn af þeirri starfsemi rynni alveg örugglega til þjóðarinnar. Hversu langt ætla menn með þá hugsun að það sé eina leiðin til að tryggja þjóðinni afrakstur af atvinnustarfsemi að lagður verði á skattur, afraksturinn tekinn í ríkissjóð og honum dreift þaðan? Sjá menn ekki hvar það endar? Sjá menn ekki hversu hættulegt það er að auðlindahugtakið er mjög teygjanlegt og toganlegt? Ef menn eru á annað borð þeirrar skoðunar að þjóðin hafi í engu notið afrakstursins af sjávarútvegi vegna þess að ekki hafi verið lögð á hann sérstök auðlindagjöld er augljóst á hvaða vegferð þeir eru.

Virðulegi forseti. Það er ekki bara upphæð gjaldsins sem skiptir máli. Vitanlega er það allt of hátt. Vitanlega mun það hafa mjög alvarlegar afleiðingar. Vitanlega mun það valda því að sjávarútvegsfyrirtæki munu fara á hausinn, á það hafa allir sérfræðingar bent. En það er ekki bara upphæðin. Það er líka hugmyndafræðin sem liggur að baki, hugmyndafræðin og hugsunin sem segir: Þjóðin nýtur ekki arðsins nema lagður sé á sérstakur ofurskattur og hann fluttur í ríkissjóð og þannig getur þjóðin fengið til sín arðinn af sjávarútvegsauðlindinni.

Ég tek undir það sem fram hefur komið í umræðunni um það hvernig málið var búið og hvernig það var lagt fram til þings, það er auðvitað bara reginhneyksli. Það er ábyrgðarlaust að hafa lagt fram frumvarp með þessum hætti. Reikniverkið allt var meingallað. Gögnin sem notuð voru til grundvallar hentuðu ekki og gáfu kolranga mynd af þessum skattstofni. Samt var þráast við og þeir sem talað hafa gegn málinu hafa setið undir upphrópunum um að þeir standi í einhvers konar hagsmunagæslu þegar hagsmunagæslan er bara fyrir íslensku þjóðina og reynt hefur verið að kom í veg fyrir það að frumvarp sem var svo meingallað yrði gert að lögum. Hvernig hefði átt að standa að málinu? Jú, með allt öðrum hætti en gert var.

Málinu var haldið frá öllum hagsmunaaðilum, öllum þeim sem gerst þekkja til íslensks sjávarútvegs. Málinu var haldið frá þeim fræðimönnum sem helst hafa fjallað um þessi mál og að sjálfsögðu var því líka haldið frá stjórnarandstöðunni. Lagt var fram frumvarp sem byggði á reikniverki sem var fullkomlega galið og sú hugsun að stýra eigi heilli atvinnugrein með reikniverki þannig að einhver meðaltalshugsun og einhver meðaltalssjónarmið um það hvernig atvinnugreinin muni síðan reka sig ætti að heyra fortíðinni til. En þetta er staðan. Þetta er frumvarpið sem er á leiðinni í gegn, auðvitað nokkuð breytt. Það er búið að lækka gjöldin en grundvallaratriðin eru jafnröng núna og þau voru þegar frumvarpið var lagt fram. Áfram er þar sú hugsun að íslenska þjóðin fái í engu notið arðsins nema gegnum skattlagningu. Áfram er þar sú hugsun að einhvers konar reikniformúla og meðaltöl eigi að vera undir og yfir starfsemi heillar atvinnugreinar. Sú niðurstaða er ekkert annað en sorgleg og auðvitað hljótum við þegar að því kemur að greiða atkvæði gegn frumvarpinu. Það á ekki að verða að lögum.