140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:27]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál ber öll einkenni þess að slagorðasmiðirnir og spunameistararnir í Samfylkingunni og Vinstri grænum eru búnir að spinna svo mikið að þeir eru farnir að trúa sínum eigin orðum. Þetta er dæmigerð ranghugmynd vinstri manna um að það sé bara hægt að finna einhverja aðila í þjóðfélaginu, sérstaklega ef búið er að mála þá svörtum litum, og ef við náum öllum fjármunum af þeim verður allt betra fyrir alla hina. En því fer víðs fjarri að þetta sé rétt. Ég vek athygli á því að þetta mál er einstaklega illa unnið, eins og allir vita, það kemur fram á elleftu stundu og menn heimta að það fari inn í þingið óskoðað. Sem betur fer er búið að koma í veg fyrir enn verri hluti en raun ber vitni, en samt er ekki enn búið að kanna áhrif þessa máls á heimilin í landinu. Ef einhver trúir því að það sé gott fyrir heimilin í landinu að taka einn af undirstöðuatvinnuvegunum og reyna að kreista út úr honum hverja krónu þá er það fullkominn misskilningur.

Augljósu afleiðingarnar eru þær sem snúa að fólkinu sem starfar hjá þessum fyrirtækjum, ég tala ekki um ef fyrirtækin fara á hausinn. En það eru fleiri aðilar en þeir sem vinna beint við sjávarútveginn, þeir eru miklu fleiri en menn ætla sem veita sjávarútveginum þjónustu. Ef fram fer sem horfir og það verður lítil sem engin fjárfesting á þessu sviði mun það koma beint niður á þeim sem þjónusta sjávarútveginn. Það mun alveg örugglega gerast. Síðan mundi maður ætla að svona högg hefði áhrif á gengi krónunnar. Ég vil spyrja, virðulegi forseti, hefur það verið kannað? Ég skal svara því. Það hefur ekkert verið kannað, menn hafa ekkert kannað það. Og hvaða áhrif hefur það á heimilin í landinu ef gengi krónunnar veikist? Jú, virðulegi forseti. Það hefur meðal annars þau áhrif að lán þeirra fjölmörgu Íslendinga sem eru með verðtryggð lán munu hækka. Þrátt fyrir að menn hafi farið þá leið að veifa framan í fólk einhverjum óskalista ríkisstjórnarinnar sem búið er að setja á allt sem hefur verið í umræðunni og hljómar vel í spunanum breytir það ekki því að engri þjóð hefur farnast vel með því að ráðast á undirstöðuatvinnuvegina. Það breytir engu þrátt fyrir að mikil og neikvæð umræða hafi verið um einstaka aðila eða þætti kerfisins, það hagnast engin þjóð á því að vega að undirstöðuatvinnuvegunum.

Ég vek athygli á því sem fram hefur komið í umræðunni um að ekki var búið að kanna áður en þetta mál var sett fram hvort bankarnir gætu borið skarðan hlut frá borði vegna þess. Hverjum er ekki sama um þessa banka? Virðulegi forseti, okkur getur ekki verið sama um sjávarútvegsbankann vegna þess að þau áföll sem hann verður fyrir lenda síðan beint á skattgreiðendum. Landsbanki Íslands er stóri sjávarútvegsbankinn og reikningurinn af áföllum sem hann verður fyrir er sendur á skattgreiðendur. Þetta var reyndar ekkert skoðað þegar frumvarpið var lagt fram heldur seinna og þá komu í ljós hugsanlegar afleiðingar sem við þekkjum, en það er ekki enn búið að kanna hver reikningur bankans, þar af leiðandi skattgreiðenda, verður til kröfuhafa. Þeir voru svo klókir, virðulegi forseti, þegar þeir sömdu við hæstv. ríkisstjórn að reikningar vegna allra stjórnvaldsaðgerða eins og til dæmis þessarar sem veikja efnahag bankans, verða sendir í uppgjöri milli gamla og nýja bankans til skattgreiðenda. Þetta hefur ekki verið kannað.

Nú sjá menn í hillingum að það fáist 10–12 milljarðar, jafnvel 13 milljarðar og það er umtalsverð hækkun frá því sem veiðigjaldið er núna, en skyldi nú ekki upphæðin minnka þegar við reiknum út skaðann sem verður annars staðar? Ef við reiknum hver verður skaðinn fyrir heimilin í landinu, ef við reiknum hver skaðinn verður fyrir ríkisbankann sem menn ætluðu reyndar að græða svo mikið á núna í þessari umferð því það átti að selja hann — þegar menn taka saman alla þessa reikninga er ég hræddur um að það verði lítið eftir af þessu veiðigjaldi. Við erum að horfa á enn eina birtingarmynd þess að þessir alþýðubandalagsflokkar sem mynda ríkisstjórnina bera ekkert skynbragð á atvinnulíf í landinu. Þeim virðist vera nokkurn veginn sama um það. Og það að vera sama um atvinnulífið í landinu er að vera sama um heimilin í landinu.

Það er engin afsökun fyrir því að koma hingað aftur og aftur með illa unnin frumvörp sem menn hafa ekki skoðað hvaða afleiðingar geta haft, og vera alltaf jafnpirraður og hissa yfir því að menn vilji ekki renna þeim í gegnum þingið hratt og vel.

Það er gott að hæstv. utanríkisráðherra er væntanlega að fylgjast með umræðunni (Utanrrh.: Heldur betur.) því að hæstv. utanríkisráðherra hitti naglann á höfuðið í umræðum um sjávarútvegsstefnu þessarar ríkisstjórnar. Hann hitti naglann á höfuðið. (Utanrrh.: Í Kastljóssþætti.) Það hafa fáir ef nokkrir orðað þetta betur, en hann benti réttilega á að það frumvarp sem var jafngallað og það sem hæstv. ríkisstjórn heimtaði að við mundum klára á viku, væri slys. (Gripið fram í.) Hæstv. ráðherra sagði að það frumvarp væri bílslys og það var hárrétt hjá honum. En samt sem áður var hann í hæstv. ríkisstjórn sem heimtaði að við kláruðum það mál á viku. (Gripið fram í.) Það var komið í veg fyrir það bílslys, ekki vegna þess að hæstv. ríkisstjórn vildi það. Hæstv. ríkisstjórn lét öllum illum látum en stjórnarandstaðan kom í veg fyrir það bílslys. En þrátt fyrir að stjórnarandstaðan hafi takmarkað að einhverju leyti þann gríðarlega skaða sem hefði orðið ef hugmyndir hæstv. ríkisstjórnar um þessi mál hefðu náð fram að ganga, er skaðinn þegar mikill.

Spunameistarar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna hafa leyft sér að koma í þennan sal og segja að þeir sem benda á staðreyndir í þessu máli, þeir sem hafa reynt að koma í veg fyrir bílslys og önnur slys í tengslum við þessi mál, séu að gæta einhverra annarra hagsmuna en hagsmuna almennings. Það er holur hljómur í því þegar enn þá hefur ekki verið kannað hvaða afleiðingar þessi stórgölluðu frumvörp hafa á almenning í landinu. En eitt er ljóst, þetta mun ekki hafa góð áhrif á almenning í landinu. Það má vel vera að hægt verði að umbuna einhverjum vildarvinum ríkisstjórnarinnar með þessum fjármunum, ég veit ekkert um það, það má vel vera. En íslenskur almenningur mun aldrei græða á þessari stefnu.