140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[20:08]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. velferðarnefnd fyrir samstarfið í nefndinni hvað þetta mál varðar. Ég álít að skilaboðin hvað frumvarpið varðar séu að Íbúðalánasjóður muni áfram gegna lykilhlutverki á húsnæðismarkaði á Íslandi.

Við 3. umr. voru þrjú atriði sem ég tók fram í mínu nefndaráliti. Í fyrsta lagi taldi ég að í ljósi þeirrar þróunar sem er að verða á húsnæðislánamarkaði mundi Eftirlitsstofnun EFTA áfram fylgjast með Íbúðalánasjóði. Er það vel. Ég taldi líka nauðsynlegt að sett yrðu almenn lög um fasteignalán á Íslandi auk þess að ég lagði fram breytingartillögu um að gera þyrfti skýrar reglur um aðskilnað milli leigufélagsins sem Íbúðalánasjóður er að fá heimild til að setja á stofn og sjóðsins sjálfs í ljósi þess að leigufélagið er á samkeppnismarkaði og Íbúðalánasjóður aðallánveitandi þessara félaga. (Forseti hringir.) Meiri hlutinn hefur tekið undir þá breytingartillögu sem ég fagna og mun því styðja málið.