140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[20:10]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það eru mörg mál sem við eigum eftir að ræða sem tengjast Íbúðalánasjóði og það er afskaplega dapurlegt að það skyldi ekki hafa verið unnið betur í málum í tengslum við hann. Þar er kannski sá hópur fólks sem á í mestum erfiðleikum, er fastur í verðtryggingunni og getur sig lítið hreyft. Margir hafa hins vegar farið úr sjóðnum, í fyrsta skipti í sögunni, að ég tel, er meira um inngreiðslur í Íbúðalánasjóð en útgreiðslur úr honum. Fram til þessa hafa 33 milljarðar farið af skattfé og til að ná upp í lögbundið eiginfjárhlutfall þarf 12 milljarða í viðbót.

Í ofanálag, og það hefur mjög lítið verið rætt, ætlar sjóðurinn núna að verða langstærsti aðilinn á íslenskum leigumarkaði og það án þess að hér hafi farið fram nein almennileg umræða um hvernig á að framkvæma það. Við skulum vona að sú framkvæmd takist vel en það eru mjög miklar líkur á því (Forseti hringir.) að þar geti orðið mikil slys og jafnvel gæti grafið undan þeim aðilum sem hann hefur lánað fram til þessa.