140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[20:14]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Sú breytingartillaga sem nú verður gengið til atkvæða um felur í sér heimildir handa Íbúðalánasjóði til að fara hina svokölluðu landsbankaleið sem felur í sér talsverða rýmkun gagnvart skuldugum heimilum frá því sem nú er. Ef núverandi ástand heldur áfram myndast tvenns konar óréttlæti, annars vegar gagnvart þeim sem skulda Íbúðalánasjóði en hafa ekki skuldir sínar í bönkum sem hafa gengið mun lengra til að lækka skuldir skuldugra heimila en Íbúðalánasjóður hefur haft lögformlegar heimildir til og hins vegar óréttlæti gagnvart íbúum landsbyggðarinnar sem eru að stórum hluta í þeirri stöðu að hafa ekki getað fengið íbúðalán nema í Íbúðalánasjóði og eiga þess vegna ekki kost á þeim úrræðum sem bankarnir hafa beitt sér fyrir. Sannarlega kostar þetta peninga. Það eru til leiðir til að fjármagna það. Það hefur verið gerð grein fyrir því og auðvitað er öllum ljóst að frekari úrræði gagnvart skuldugum heimilum munu snerta pyngju ríkissjóðs.

Það sem þarna mun þó gerast er að lánasafn (Forseti hringir.) Íbúðalánasjóðs verður sterkara en ella og minni hætta er á öðrum afskriftum sem blasa hins vegar við við óbreytt ástand.