140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

vinnustaðanámssjóður.

765. mál
[20:20]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Hér er um að ræða afskaplega jákvætt mál. Ég get tekið undir margt sem kom fram í ræðu fyrrverandi hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, fyrr í dag. Hún fór yfir það hversu jákvæð áhrifin af þessu máli yrðu fyrir starfsmenn. Einn af umsagnaraðilum fyrir nefndinni sagði að hér væri stigið eitt stærsta skref sem stigið hefði verið í starfsnámsmálum á Íslandi um árabil og má svo sannarlega taka undir það og þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir að hafa komið með málið svo vel unnið inn í þingið þannig að það fékk hraða afgreiðslu í gegnum nefndina. Hér er verið að mæta stofnunum og atvinnurekendum með kostnaði sem hlýst af starfsnáms- og vinnustaðanámsþjálfun og stórauka möguleika nemenda á að komast á samning og í starfsþjálfun almennt.

Ég held að það sé óhætt að taka undir þau ummæli gestsins okkar á nefndarfundinum að hér sé stigið eitt stærsta skref sem stigið hefur verið um árabil á Íslandi í starfsnámsmálum og iðnmenntamálum og óska þingheimi til lukku með það.