140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:32]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Eins og við vitum kom hingað inn frumvarp sem var afar illa ígrundað. Í því er hugsanavilla sem gengur hreinlega út á ranga hluti. Allir umsagnaraðilar sögðu að þetta væri leið til glötunar, að hér færu fjölmörg útgerðarfyrirtæki á hausinn, bæði stór og smá. Eftir að þingið hefur farið höndum um frumvarpið er búið að breyta talsvert miklu í því. Enn vitum við þó ekkert um áhrif þess á einstök útgerðarfyrirtæki eða útgerðarflokka. Það sem við vitum þó er að þetta verður að meðaltali mjög erfitt fyrir útgerðina. Við vitum að þetta er landsbyggðarskattur sem dregur fé til Reykjavíkur frá landsbyggðinni sem sannarlega þarf á því að halda. Ekki lifði hún hátt á þenslutímanum og nú er kannski kominn tími til að hún fái að njóta ávaxtanna en um það vitum við ekkert. (Forseti hringir.) Hér erum við að ana út í óvissuna. Ríkisstjórnin er þó búin að viðurkenna að aðferðafræðin sé röng og að þetta verði endurskoðað allt innan eins árs en við vitum ekkert, frú forseti, um hvað við erum að greiða atkvæði.