140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:36]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Alveg frá því að þetta frumvarp kom fram í lok mars höfum við sjálfstæðismenn varað mjög við afleiðingum þess. Við bentum á, og það kom líka fram hjá umsagnaraðilum, að ef þetta frumvarp yrði samþykkt mundi það hafa mjög óheillavænleg áhrif. Það hefur komið fram að forsendur þessarar gjaldtöku væru rangar, afleiðingarnar yrðu mjög alvarlegar og áform ríkisstjórnarinnar mundu kollvarpa sjávarútveginum og valda starfsfólki í sjávarútvegi miklu tjóni og laska síðan til viðbótar margar sjávarútvegsbyggðir.

Í raun og veru má segja að þær breytingartillögur sem meiri hluti atvinnuveganefndar lagði fram hafi að nokkru leyti verið viðurkenning á þessu. Þær ganga þó engan veginn nægilega langt. Ég hafna þessu frumvarpi og óttast að afleiðingarnar verði mjög fljótlega mjög vondar fyrir mjög marga.