140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:41]
Horfa

Atli Gíslason (U) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Eins og hér hefur komið fram er þetta landsbyggðarskattur að 80% leyti. Frumvarpið felur ekki í sér skiptingu þannig að ríkissjóður fái hluta, sveitarfélögin hluta og rannsóknasjóðir 10%. Þetta bitnar sem sagt á sjávarbyggðum um allt land en það sem er meiri þyrnir í mínu auga og hefur minna verið rætt er að við blasir ástæða til að ætla að þetta bitni harkalega á kjörum sjómanna og fiskverkafólks, það jafnvel mjög alvarlega. Þessir peningar verða sóttir í vasa þess fólks, um það hafa þegar komið fram kröfur af hálfu LÍÚ í yfirstandandi kjaraviðræðum og þá er ekki vel af stað farið. Nógsamlega er búið að skerða kjör sjómanna af þessari meintu félagshyggjustjórn með því að skerða sjómannaafsláttinn um meira en helming. Það er óþolandi.