140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:44]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Frumvarpið sem hér er til afgreiðslu hefur að sönnu skánað í meðförum þingsins og hugmyndir sem það var byggt á í upphafi hafa verið tónaðar niður en engu að síður liggur fyrir að hér verður um að ræða þungt högg fyrir sjávarútveginn og þungt högg fyrir byggðirnar vítt og breitt um landið. Hér er verið að stíga skref sem mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir efnahag íslensku þjóðarinnar. Ég bið hv. þingmenn að velta því fyrir sér hvers vegna jafnmikill samhljómur hafi verið með sérfræðingum, hagsmunaaðilum og sveitarstjórnarmönnum alls staðar að af landinu sem tjáðu sig um þetta frumvarp. Það var andstaða úr öllum áttum.

Ég spyr enn: Fundu hv. stjórnarliðar einhverja hagfræðinga sem töldu þetta góða lausn? Fundu stjórnarliðar einhverja lögfræðinga sem töldu (Forseti hringir.) að áhyggjurnar sem komu meðal annars fram um stjórnskipunarþátt málsins væru ástæðulausar? Það hefur ekki komið fram.

Málið er í grunninn enn stórgallað og því segi ég nei.