140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:48]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um markmið með töku á veiðigjöldum. Þar eru tíunduð markmið um rannsóknir, stjórn og eftirlit með fiskveiðum og fiskvinnslu og það að tryggja þjóðinni hlutdeild í þeim arði sem sjávarauðlindin skapar.

Ég hef lagt til að hluti af veiðigjaldinu renni til sjávarbyggðanna. Ef þetta fer heilt í gegn eins og þarna er lagt til er ekki hægt að flokka þetta öðruvísi en sem hreinan landsbyggðarskatt fyrir margar sjávarbyggðir. Í því frumvarpi sem ég lagði fram sem sjávarútvegsráðherra var gert ráð fyrir því að hluti af þessu gjaldi rynni til sjávarbyggðanna og við það stend ég. Hér liggur fyrir breytingartillaga sem hefur verið kölluð til 3. umr. um að hluti af veiðigjaldinu renni til sjávarbyggðanna og afstaða mín til frumvarpsins í heild mun ráðast af afgreiðslu þess.