140. löggjafarþing — 125. fundur,  18. júní 2012.

mat á áhættu fyrir íslenskt efnahagslíf sem stafar af vandamálum evrunnar.

836. mál
[20:58]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég tel það mjög til góðs að gerð verði skýrsla um mat á þeim vám sem steðjað geta að íslensku efnahagslífi vegna erfiðleika í okkar nánasta umhverfi en ég hef áhyggjur af því að þessi skýrslubeiðni er allt of þröngt orðuð og þröngt hugsuð. Við sjáum nú vandamál á Spáni sem stafa af því að spænskir bankar eru að verða fyrir vandræðum ekki ósvipuðum þeim sem íslenskir bankar urðu fyrir 2008. Það hefur afskaplega lítið með evruna að gera en mjög mikið að gera með veikleika í hinu evrópska fjármálaumhverfi og regluverki er varðar bankastarfsemi.

Ég mundi óska eftir því að heiti þessarar skýrslubeiðni væri víðtækara þannig að það næði raunverulega yfir þær viðsjár sem eru sannanlega á hinum innri markaði Evrópusambandsins í dag sem við erum þátttakendur í og næði í að greina til fulls þær hættur sem við stöndum frammi fyrir og eru ekki einskorðaðar við evruna sem slíka heldur hlutdeildina á hinum innri markaði.