140. löggjafarþing — 125. fundur,  18. júní 2012.

innheimtulög.

779. mál
[21:06]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Þetta er frumvarp frá efnahags- og viðskiptanefnd. Það byggist á þeirri meginhugsun íslensks réttar að einstaklingar og lögaðilar megi ekki beita sjálfir valdi til að ná fram rétti sínum heldur sé það hið opinbera sem hafi einkarétt á að þvinga fram efndir skuldbindinga.

Í frumvarpinu er því mælt fyrir um að innheimtuaðilinn skuli afla skriflegs samþykkis skuldara áður en lausafé er tekið úr vörslu hans, enda sé hann í vanskilum með afborganir eða lánskostnað. Ef viðkomandi innheimtuaðili brýtur þessi ákvæði varðar það samkvæmt breytingartillögu frá efnahags- og viðskiptanefnd stjórnvaldssektum sem geta verið frá 50 þús. kr. upp í 50 millj. kr. Þetta er mjög mikilvæg réttarbót fyrir almenning á Íslandi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)