140. löggjafarþing — 125. fundur,  18. júní 2012.

nauðungarsala, aðför, meðferð einkamála og fjármálafyrirtæki.

716. mál
[21:31]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta frumvarp hefur að geyma ýmsar réttarbætur. Hér er að finna ákvæði úr ýmsum áttum. Að hluta til er frumvarpið samið í innanríkisráðuneytinu að höfðu samráði við efnahags- og viðskiptanefnd eins og fram kemur í greinargerðinni. En síðan eru ákvæði sem koma annars staðar frá eins og einnig er gerð grein fyrir.

Ég kom inn í þessa umræðu í andsvari við framsögumann frumvarpsins á laugardag og gerði athugasemdir við tvær greinar, 7. og 8. gr. frumvarpsins. Ég vil segja að ég tel gjafsókn vera grundvallaratriði í réttarríki og mjög mikilvægt að vel sé þar að málum staðið, um það gildi skýrar reglur og að við höfum til ráðstöfunar þá fjármuni sem duga til að sómi sé að. Ég tel að málum sé nú svo komið að fjármunir séu af of skornum skammti sem ætlaðir eru til gjafsókna.

Tilefni til gjafsókna hafa verið mörg í kjölfar hrunsins og þá mál sem tengjast fjármálastofnunum og skuldamálum einstaklinga og fyrirtækja í tengslum við það. Þetta hefur verið rætt nokkuð á borði samráðsnefndar á vegum ríkisstjórnarinnar um skuldamál heimilanna og niðurstaðan varð sú að beina slíkum gjafsóknarmálum inn í farveg fjármálastofnana og samráðsvettvangs þeirra, Samkeppniseftirlits og umboðsmanns skuldara. Allir þeir aðilar ættu að koma þar að máli. Niðurstaðan er sem betur fer sú að samkomulag er vonandi að nást um að leidd verði til lykta fyrir dómstólum gjafsóknarmál sem yrðu þá kostuð af þessum aðilum. Það er ekki alveg fullfrágengið hvernig samkomulagið verður og ég ætla ekki að fara nánar út í þá sálma fyrr en samkomulag liggur á borði. En þetta varð þess valdandi að allsherjarnefnd ákvað að fella 8. gr. út, eins og kom fram í máli hv. þm. Magnúsar Norðdahls, og gefur kannski tilefni til að minna okkur á að stundum þurfum við að tala meira saman, þingnefndirnar, ríkisstjórnin og stjórnsýslan sem vélar um þessi mál.

Hvað varðar 7. gr. þá hef ég efasemdir um að tímabært sé að lögfesta hana, ekki vegna þess að ég sé andvígur innihaldi hennar. Í grundvallaratriðum vil ég víkka út það svið sem gjafsóknarmálin taka til. Hv. þm. Magnús Norðdahl sagði að ekki væri litið á þessa lagabreytingu sem tilefni til útgjaldaauka fyrir ríkissjóð. Jafnframt sagði hann að þetta ætti ekki að verða til þess að tekjulægsta fólkið færi halloka vegna þessara breytinga. Nú er það svo að gjafsóknir fá einvörðungu allra tekjulægstu einstaklingarnir í þjóðfélaginu. Hins vegar er unnt samkvæmt lögunum eins og þau standa nú og reglugerð að horfa til annarra þátta en teknanna einna. Það er hægt að horfa til greiðslugetu einstaklinga líka, skuldastöðu o.s.frv. En í mínum huga gengur þessi tvenna ekki alveg upp, að stofna ekki til aukinna útgjalda annars vegar og rýmka reglurnar en þó þannig að það verði aldrei á hlut tekjulægsta fólksins.

Þarna er komið að kjarnanum í gagnrýni minni. Við þurfum einfaldlega að tryggja meira fjármagn til þessara mála. Það er það sem þarf að gerast. Þess vegna tel ég að þegar þingið samþykkir lagabreytingar verði það jafnframt að tryggja aukna fjármuni til málaflokksins. Það er grundvallaratriði vegna þess að það vill gerast allt of oft að mál sem fara í gegnum þingið fara ekki hina lögformlegu leið að láta þau gangast undir kostnaðarmat eins og gerist um öll mál sem koma frá ríkisstjórninni, koma þá leiðina. Það á við í þessu máli líka.

Ég gagnrýni hitt jafnframt að þótt hv. þm. Magnús Norðdahl segi það auðvelt mál að setja reglurnar, setja reglugerð um framkvæmd laganna, þá er það ekki alveg svo vegna þess að þegar menn leita til gjafsóknarnefndar eða ráðuneytis almennt um aðstoð líta allir á sitt mál sem fordæmisgefandi og afar mikilvægt og þau mál sem gjafsóknin tekur til eru mannréttindamál. Þau snúa að forræðisdeilum foreldra, þau snúa að barnavernd, þau snúa að líkamstjóni, fólk sem verður fyrir slysi eða einhverjum miska. Þetta eru málin sem koma til gjafsóknar og eru að sjálfsögðu mannréttindamál. Þá höfum við forgangsraðað þannig að það sé einvörðungu tekjulægsta fólkið sem nýtur góðs af. Það er hugsunin á bak við þetta. Ef við ætlum að breyta henni þá verðum við að tryggja meira fjármagn, miklu meira fjármagn og við þurfum að vanda vel til regluverksins þannig að við byggjum á jafnræðishugsun en ekki geðþóttavaldi. Það er mjög mikilvægt.

Þess vegna hefði ég talið eðlilegt að láta þetta liggja og fara að þeirri tillögu sem ég lagði fram að lagst yrði yfir smíði regluverks en ekki ráðist í breytingu á lögunum fyrr en það lægi fyrir.