140. löggjafarþing — 125. fundur,  18. júní 2012.

nauðungarsala, aðför, meðferð einkamála og fjármálafyrirtæki.

716. mál
[21:50]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Magnús M. Norðdahl) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Bara til að það sé sagt þá var til regluverk sem notað var áður en þessi lagabreyting átti sér stað. Í þeim störfum sem þá voru unnin og í störfum hinnar eldri gjafsóknarnefndar er að finna mjög mikla reynslu og þekkingu á því hvað þarna er undir. Af þeim ástæðum óttast ég ekki að ráðuneytið yrði lengi að semja reglugerð í þessu efni.

Til lengri tíma litið geri ég auðvitað ráð fyrir því að kostnaður muni aukast en ég ítreka að ég geri ekki ráð fyrir því að það muni dynja á ráðuneytinu í bili, einfaldlega vegna þess hversu langan tíma þetta tekur. Ef ég man rétt held ég að fjöldi gjafsóknarmála núna um mitt ár sé ekki nema rúmlega 111 mál eða 120, ég man ekki hvort er, miðað við rúmlega 300 á síðustu árum þannig að enn fer þeim fækkandi. Það knýr okkur enn frekar til að stuðla að því að þessi lagabreyting taki gildi sem fyrst og þá fari í gang sá gamli praxís sem á þessu var, en ráðuneytið forgangsraði engu að síður og ráði hvernig það ráðstafar þessum peningum. Það má ekki forgangsraða þannig að burt falli prinsippmál sem geta varðað mannréttindi og mál þar sem fólk stendur frammi fyrir þeim valkosti að fórna öllum eigum sínum eða að láta óréttlætið að öðrum kosti yfir sig ganga.