140. löggjafarþing — 125. fundur,  18. júní 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[22:18]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að orðlengja mikið þessa umræðu en teldi það ákveðið stílbrot af minni hálfu ef ég tæki ekki til máls að nýju við umræðu um sparisjóðina. Ég vil út af fyrir sig fagna því að þetta frumvarp er komið fram og líka fagna því að í salnum er fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra sem hefur lagt þessu máli gott lið.

Ég vil einfaldlega segja þetta: Sparisjóðakerfið okkar hefur staðið í miklum hremmingum undanfarin missiri. Að hluta til var það vegna hrunsins mikla haustið 2008 þegar sparisjóðirnir voru eins og aðrar fjármálastofnanir grátt leiknar af ýmsum ástæðum. Það væri í sjálfu sér hægt að fara mörgum orðum um það og ég hygg að vandamál sparisjóðanna sé, eins og gerist og gengur, mjög mismunandi eftir fjármálastofnunum. Orsakir erfiðleika þeirra eru mjög mismunandi og fráleitt að tala um það á þann veg sem stundum er gert, að skella öllum sparisjóðunum undir einn hatt og gagnrýna þá almennt þannig að það eigi við um alla sparisjóði.

Í mörgum tilvikum var það þannig að aðstæðurnar sem sparisjóðirnir bjuggu við leiddu til erfiðleika þeirra. Ég tek sem dæmi: Sparisjóðir sem margir hverjir voru býsna vel settir höfðu rúmt lausafé og góða eiginfjárstöðu, þurftu á því að halda að reyna að ávaxta þetta mikla eigin fé. Gætu þeir ekki gert það eingöngu með útlánum fóru þeir í að kaupa skuldabréf frá fyrirtækjum sem talin voru traust og höfðu fengið gott mat sem traustir aðilar, sýndu traustan og góðan efnahagsreikning og jafnvel góðan rekstrarreikning. Í ýmsum tilvikum fóru þessir sparisjóðir eins og margir aðrir að kaupa skuldabréf af slíkum fyrirtækjum til að ávaxta sitt eigið fé þegar hrunið varð og þessi fyrirtæki reyndust ekki vera jafnöflug eins og menn höfðu ætlað og höfðu talið sig geta lesið út úr ársreikningunum. Þá fór auðvitað sem fór. Þetta er einn þáttur í falli margra sparisjóðanna sem margir hafa því miður horft fram hjá. Mér finnst að umræðan hafi oft og tíðum verið mjög óvægin í garð sparisjóðakerfisins. Þar hefur það stundum átt við að finni menn laufblað fölnað eitt þá fordæmi þeir allan skóginn svo að ég umorði nú vísubrot sem flestir kannast við.

Núna stöndum við hins vegar frammi fyrir því að orðið hefur áframhaldandi samþjöppun á fjármálamarkaðnum á undanförnum missirum. Það var mikil samþjöppun fyrir hrun. Þó var það þannig að á alþjóðlegan viðurkenndan mælikvarða var samþjöppunin í hærri kantinum miðað við það sem menn mæla þegar verið er að mæla samþjöppun á þessa mælikvarða. Síðan hefur slegið í bakseglin eins og við vitum. Hrun stærsta sparisjóðsins, SpKef, Sparisjóðs Keflavíkur áður, hafði þar mjög mikið að segja, SPRON sömuleiðis og Byr. Allt var þetta til þess fallið að veikja sparisjóðakerfið í heild og auka samþjöppunina sem nú er orðin í bankakerfinu sem ég tel að sé orðin háskalega mikil. Það er því mjög mikils virði að hafa þann valkost sem sparisjóðirnir sannanlega geta verið sem hluta af því fjármálakerfi sem við þurfum að sjá á Íslandi sem á að vera dreifðara en það er í dag án þess að það þurfi að leiða til aukins kostnaðar.

Sparisjóðirnir þurfa að fara í gegnum sína endurskipulagningu eins og aðrir. Þeir hafa á undanförnum mánuðum og missirum, liggur mér við að segja, farið í gegnum heilmikla stefnumótunarvinnu sem hefur miðað að því að reyna að búa til öflugra sparisjóðanet en er í dag. Og mér finnst mjög líklegt að við munum sjá á næstunni frekari samþjöppun sparisjóðanna og sameiningu en er í dag þó að ég ætli ekki að spá neitt nákvæmlega um það hvernig sú mynd muni líta út eftir einhvern óskilgreindan tíma.

Sparisjóðirnir hafa líka verið að takast á við aukinn kostnað. Það hefur verið þannig að lagðir hafa verið skattar á fjármálafyrirtækin sem hafa bitnað harkalega á minni stofnunum eins og við höfum séð, sparisjóðum og nýjum fjármálafyrirtækjum. Sparisjóðirnir fengu ekki þá meðgjöf sem nýju bankarnir fengu með því að þar yfirtóku þeir lán frá gömlu bönkunum sem búið var að afskrifa og gátu þess vegna nýtt þær afskriftir til að búa til afslætti fyrir viðskiptamenn sína, til dæmis með niðurfærslu lána í tengslum við 110%-leiðir og annað þess háttar sem bankarnir hafa getað beitt en hafa verið kostnaðarsamar fyrir sparisjóðakerfið. Allt að einu þá er staða sparisjóðanna erfið eins og við vitum. Það hefur líka komið fram í nýjum skýrslum að rekstur sparisjóðanna er ekki eins góður og hann þyrfti að vera og af þeim ástæðum er augljóst að sparisjóðirnir þurfa að fara í gegnum það með hvaða hætti þeir geta snúið þessari þróun við. Ég sat nýlega fund sem Samband sparisjóða efndi til um framtíð sparisjóðakerfisins og þar kom fram mjög eindreginn ásetningur forustumanna sparisjóðanna að efla sparisjóðina með frekari sameiningum, jafnvel með markaðssókn inn á og höfuðborgarsvæðið og þar fram eftir götunum. Allt eru þetta hlutir sem framtíðin mun síðar leiða í ljós hvernig mun takast til.

Það frumvarp sem við ræðum núna er einmitt liður í því að auðvelda sparisjóðunum að afla sér aukins fjármagns til að styrkja efnahagsreikninginn þannig að þeir geti tekist á við þá samkeppni sem þarf að vera til staðar í fjármálaheiminum og kröfur neytenda um minnkandi vaxtamun og minnkandi þjónustugjöld og annað þess háttar. Það verður auðvitað ekki gert nema menn geti þá hagrætt í sparisjóðakerfinu eins og kostur er.

Ríkissjóður mun hins vegar geta valdið mjög miklu um það hvernig fjármálakerfið þróast á næstu mánuðum, liggur mér við að segja. Eins og menn vita þá var það þannig að við erfiðleika sparisjóðanna kom ríkissjóður til skjalanna með ýmsum hætti og Seðlabankinn. Nú er það þannig að í fimm sparisjóðum á ríkið mjög ráðandi hlut í þó nokkrum tilvikum um eða yfir 90%, einhvers staðar 75% og einhvers staðar um 50% eða rúmlega það. Það er því ljóst mál að eignarhlutur ríkisins í sparisjóðunum og meðferð hans mun ráða mjög miklu um það hvernig sparisjóðirnir munu líta út. Ég efndi til umræðu um þessi mál fyrir fáeinum vikum á Alþingi þar sem ég spurði hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um áformin um það hvernig staðið yrði að mögulegri sölu á stofnfjárbréfum sem ríkið ætti núna í þessum sparisjóðum. Ég lýsti þeirri skoðun minni að tafarlaust ætti að ganga þannig frá málum að það væri ljóst að þessi stofnfjárbréf yrðu ekki seld fjármálafyrirtækjunum eða bönkunum því það mundi leiða til frekari samþjöppunar. Það mundi leiða til þess að enn frekar mundi flísast út úr sparisjóðakerfinu sem að lokum mundi leiða til þess að sparisjóðakerfið yrði ekki til, hvorki í þeirri mynd sem það er núna né í nokkurri annarri mynd. Það er augljóst mál að ef sparisjóðakerfið skreppur meira saman en það hefur þegar gert mun það aftur hafa einhvers konar dómínóáhrif sem leiðir til þess að sparisjóðakerfið sjálft líði undir lok á endanum.

Eftir að hafa spurt hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um þessi mál þá svaraði hæstv. ráðherra — ekki síst vil ég koma inn í þessa umræðu þannig að menn hafi það aftur svart á hvítu hvert er viðhorf ríkisstjórnarinnar til þessara hluta — svohljóðandi, með leyfi forseta.

„Varðandi aðkomu ríkisins að þeim sem eiganda“ — þ.e. að sparisjóðunum — „er mér ekki kunnugt um annað en að haldið sé við þær reglur sem mótaðar voru á sínum tíma í aðdraganda þess að ríkið lagði fé eða breytti kröfum í stofnfé í sparisjóðum. Það er einfaldlega þannig að það sem ríkið óskar sér að gera í þeim efnum er að stofnfjáreigendur fái þann hlut, leysi hann til sín, bæði þeir sem fyrir eru og nýir, til að byggja á nýjan leik upp öflugt stofnfjáreigendabakland fyrir sparisjóðina. Svo fremi sem grundvöllur sé fyrir rekstri þeirra og stuðningur og vilji sé til þess í heimabyggðum tel ég engan vafa leika á því að það er þetta sem ríkið á að reyna að laða fram og beita afli sínu til að gera.“

Það sem hæstv. ráðherra er greinilega að reyna að segja er að hann telur að standa eigi þannig að sölu á hlut ríkisins í sparisjóðunum að það séu stofnfjáreigendur, nýir eða gamlir, sem geti þá keypt þennan hlut. Einnig finnst mér koma til greina, ef um er að ræða aukningu á stofnfé án sölu ríkisins, að það séu þá stofnfjáreigendur, nýir eða gamlir, sem kaupi það þannig að menn geti eflt sparisjóðakerfið. Nú er verið að gera þá grundvallarbreytingu á sparisjóðalöggjöfinni með þessu að búin er til ný skilgreining á sparisjóðum. Hún er ekki bara miðuð við það að um sé að ræða þær sjálfseignarstofnanir sem sparisjóðirnir hafa verið heldur er líka verið að opna á hlutafélagaformið en þó með ákaflega skýrum takmörkunum til að tryggja að sparisjóðirnir haldi áfram að gegna hlutverki sínu sem staðbundnar stofnanir sem sinni þá fyrst og fremst þeim verkefnum sem þeir voru upphaflega stofnaðir til og kunna best á. Þess vegna er gert ráð fyrir því, eins og við vitum, í frumvarpinu að þrengja mjög frá því sem áður hefur verið verksvið sparisjóðanna, þeir fari ekki inn í áhættusamari rekstur eins og með verðbréfaviðskipti og aðra slíka hluti, tryggingasölu og þess háttar. Þetta allt saman mun þá væntanlega leiða til þess að þetta verði í fyrsta lagi mjög staðbundnar stofnanir, í öðru lagi stofnanir sem verða starfandi í mjög afmörkuðum þætti fjármálalífsins og verði þess vegna að því leytinu eðlislega ólíkir öðrum fjármálastofnunum. Það getur líka gefið þeim ákveðið forskot, kannski markaðslegt forskot sem ég vona að sparisjóðirnir geti svo sannarlega nýtt sér.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í upphafi þá var ekki ætlun mín að halda langa ræðu um þessi mál. Í 1. umr. málsins kom ég svona almennt að þessum viðhorfum. Ég árétta það sjónarmið mitt að ég tel að sparisjóðakerfið þurfi að vera við lýði, það eigi að vera valkostur sem neytendur hafa til viðbótar við aðra fjármálaþjónustu. Með því að þrengja verksvið sparisjóðanna og setja þær skorður sem þarna eru jafnframt því að opna möguleikana á hlutafélagavæðingu þeirra með þeim skilyrðum sem kveðið er á um í þessu frumvarpi þá tel ég að það sé alla vega viðleitni í þá áttina að tryggja sparisjóðakerfið til frambúðar jafnframt þeirri mikilvægu pólitísku yfirlýsingu sem hæstv. ráðherra hefur gefið og ég trúi að eigi þá að vera mótandi um það sem gerast mun varðandi stofnfjáreign ríkisins í sparisjóðunum eins og það er í dag.