140. löggjafarþing — 125. fundur,  18. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[22:56]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Varðandi tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2011–2014 sem hér liggur fyrir vil ég fyrst segja það að í henni eru gerðar nokkrar mikilvægar stefnubreytingar frá því sem áður hefur verið í samgönguáætlunum. Að vísu er fjármagnið mun takmarkaðra fyrir þessa samgönguáætlun en verið hefur nokkur tímabil á undan vegna breyttrar stöðu í efnahagsmálum þjóðarinnar. Í þessari þingsályktunartillögu er áherslan lögð á vegi víða á landsbyggðinni, og til dæmis verulega aukin áhersla á vegabætur og nýja vegalagningu á Vestfjörðum. Meiri áhersla er lögð á ýmsa safn- og tengivegi og héraðsvegi úti um land en áður hefur verið gert þó svo að verulega þurfi samt að auka í það, að mínu mati. Það er líka lögð meiri áhersla á öryggismál í samgöngum en oft hefur verið gert áður. Hvað alla þessa þætti varðar eru þessi áhersluatriði dregin fram í samgönguáætlun og afgreiðslu hennar í nefndaráliti meiri hlutans. Ég vil hæla hæstv. innanríkisráðherra Ögmundi Jónassyni fyrir þær áherslur sem eru lagðar í tillögunni og sömuleiðis vinnu nefndarinnar undir öflugri og góðri forustu hv. þm. formanns umhverfis- og samgöngunefndar Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, einmitt í þeim atriðum sem ég hef nefnt.

Engu að síður vil ég undirstrika að ég tel að enn betur hefði mátt gera einmitt hvað þessa þætti varðar og vil ég þar nefna samgöngumannvirki á Vestfjörðum, veginn norður Strandir og samgöngumannvirki í þeim landshlutum þar sem er enn langt í land með viðunandi vegtengingar og heilsársvegi með meginleiðir bundnar slitlagi. Vegalagningar og samgöngur eru eitt mikilvægasta atriðið í að tryggja jafnrétti fólks óháð búsetu. Ég tel að þarna eigi að bæta í og ég vil koma því að hér að sú ákvörðun sem tekin var af meiri hluta þingsins um að taka Vaðlaheiðargöng út úr samgönguáætlun og keyra hana fram sem sérstaka framkvæmd gengur algerlega á skjön við það vinnulag sem hér hefur verið á Alþingi þar sem samgönguáætlun ræður forgangsröðun verkefna.

Ég kem hingað fyrst og fremst til að mæla fyrir ákveðnu máli, það er vegalagning norður í Árneshrepp. Það hefur verið mér mikið hjartans mál í gegnum árin að treysta vegasamgöngur norður í Árneshrepp. Ég vil þó taka fram að meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar hefur einmitt lagt til þær breytingar á samgönguáætlun að það komi til fjármagn bæði til vegarins um Bjarnarfjarðarháls og um Veiðileysuháls norður í Árneshrepp. Meginhluti af því fjármagni kemur þó á seinna tímabil þannig að það er ekki jafnfast í hendi.

Ég vil minna á að við nokkrir þingmenn höfum lagt fram tillögu til þingsályktunar um lagningu heilsársvegar í Árneshrepp. Flutningsmenn eru auk mín hv. þingmenn Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason, Einar Kristinn Guðfinnsson, Lilja Mósesdóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Þór Saari. Við leggjum til að Alþingi álykti að lagður skuli heilsársvegur norður í Árneshrepp, þ.e. eftir Strandavegi í Norðurfjörð, og að meginframkvæmdir eigi sér stað á næstu fjórum árum en vinnunni ljúki á gildistíma samgönguáætlunar. Framkvæmdirnar við umrædda vegalagningu munu bætast við þær sem fyrir voru í upphaflegri þingsályktunartillögu um fjögurra ára samgönguáætlun.

Frú forseti. Ég legg áherslu á að að þessu verði unnið og þess vegna hef ég lagt fram breytingartillögu á þskj. 1515 við breytingartillögu á þskj. 1457, um fjögurra ára samgönguáætlun. Þar legg ég til að vegurinn um Bjarnarfjarðarháls fái á árinu 2013 250 millj. kr. og á árinu 2014 250 millj. kr., en heildarkostnaður við veginn um Bjarnarfjarðarháls norður í Bjarnarfjörð er áætlaður um 500 millj. kr. Ég legg áherslu á að þetta fjármagn komi inn á núverandi fjögurra ára tímabil og hið sama legg ég til að verði gert varðandi Veiðileysuháls. Því hafði verði bætt inn í áliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar að til þeirra framkvæmda kæmu 670 millj. kr. en það fjármagn kæmi inn á seinna tímabilinu. Í breytingartillögu minni legg ég til að á árinu 2013 komi 200 millj. kr. og á árinu 2014 komi 270 millj. kr. og afgangurinn komi þá á seinna tímabili. Það er nú svo með vegalagningu norður í Árneshrepp að ef við tökum þá ákvörðun að leggja þangað heilsársveg verðum við að standa við hana, það að vera með loforð eitthvað langt fram í tímann, áratug fram í tímann, er ekki sterkur og góður og haldbær fugl í hendi.

Í stuttri greinargerð með tillögunni segir:

„Lagt er til að framkvæmdum við Bjarnarfjarðarháls og Veiðileysuháls verði flýtt, sbr. tillögu til þingsályktunar um lagningu heilsársvegar í Árneshrepp (815. mál), og þar með að Alþingi ákveði að á næstu fjórum árum verði lokið að mestu gerð heilsársvegar norður í Árneshrepp. Verkinu verði að fullu lokið á næstu átta árum. Vegagerðin verði þegar beðin um að vinna framkvæmdaáætlun sem miði að því að svo verði.“

Ég vil minna á það að vegurinn um Bjarnarfjarðarháls var á áætlun og var tilbúinn til útboðs árið 2007 eða 2008. Þá var allt tilbúið til útboðs en var síðan skorið niður vegna niðurskurðar á vegaframkvæmdum eftir hrunið 2009. En öll gögn eru til og hægt að fara í þann veg með mjög stuttum fyrirvara.

Ég legg áherslu á það, frú forseti, að Alþingi taki á samgöngum við Árneshrepp. Það verður aðeins gert með því að sýna í verki að við viljum halda þar byggð, öflugu mannlífi og samfélagi. Það verðum við að gera með vegasamgöngum.

Þetta var tillagan sem ég vildi mæla fyrir. Ég vil líka minnast á tillögu sem ég flyt ásamt hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni og Gunnari Braga Sveinssyni þar sem við leggjum áherslu á að tryggt verði áframhaldandi flug til Sauðárkróks. Ég vissi ekki annað en að við afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár, skömmu fyrir síðustu áramót eða fyrir jólin á síðasta ári, hefði verið gert ráð fyrir auknum fjárveitingum á fjárlögum til að tryggja áframhaldandi flug til Sauðárkróks. Þegar upp var staðið reyndist svo ekki vera og olli það mér miklum vonbrigðum því að ég taldi að eitt af því sem hefði verið frágengið við afgreiðslu fjárlaga hefði verið að tryggja fjármagn til Sauðárkróks.

Reyndar er það svo að í þessari samgönguáætlun allri er mjög lítið sagt um innanlandsflugið, stöðu þess og framtíð. Ég legg áherslu á mikilvægi innanlandsflugsins, bæði fyrir hina minni og stærri staði, hvort sem það er Sauðárkrókur, Bíldudalur, Gjögur, Ísafjörður, Egilsstaðir, Vestmannaeyjar, Höfn í Hornafirði, Akureyri, Egilsstaðir, Þórshöfn o.s.frv. Í samgönguáætluninni er lítið kveðið á um innanlandsflugið og afar erfitt að lesa í það hver framtíðarstefnan er í því. Það er ljóst að það þarf að koma til fjármagn til að tryggja þessar samgöngur. Þess vegna er flutt sérstök tillaga um að tryggja áframhaldandi flug til Sauðárkróks. Ég hef einnig áréttað að flug til Gjögurs er líka í uppnámi hvað fjárveitingar varðar.

Þá er líka tillaga sem við flytjum um það sem ég held að hafi fallið brott úr áætluninni af misgáningi, en það er framlag til vegtengingar á Þverárfjallsvegi til Sauðárkróks. Þar er eftir að leggja smákafla og ljúka Þverárfjallsvegi og tengja hann vel inn á Sauðárkrók og inn á hafnarsvæðið þar sem hann liggur um, sem gefur möguleika til áframhaldandi hafnargerðar. Ég held að þetta hafi bara fallið út af misgáningi og þess vegna vil ég flytja þessa breytingartillögu við tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, ég vil bara vitna aftur til þeirrar þingsályktunartillögu sem við höfum flutt allmargir þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum og utan flokka um vegalagningu norður í Árneshrepp og að Alþingi sýni í verki að það vilji standa á bak við íbúa Árneshrepps og byggðina þar og að vegalagning þangað norður verði gerð í sýnilegri framtíð, innan næstu fjögurra ára. Á næstu fjögurra ára áætlun verði ráðist þar í umtalsverðar vegabætur og framkvæmdir hefjist strax á árinu 2013 og þeim síðan fylgt eftir þannig að þetta byggðarlag fái vegtengingu. Við erum ekki að biðja um stór og mikil jarðgöng að þessu sinni eins og sumir hafa gert og rakið hugðarefni sín um að fá jarðgöng á undan næsta vegi. En við leggjum til að Alþingi samþykki að leggja heilsársveg í Árneshrepp. Það er sú tillaga sem ég legg fyrst og fremst áherslu á.