140. löggjafarþing — 125. fundur,  18. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[23:15]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég er kominn hingað í ræðustól til að mæla fyrir breytingartillögu á þskj. 1574 sem lýtur að samgönguáætlun 2011–2022 og tel nauðsynlegt að mæla fyrir þeirri tillögu á ný þar sem hún hefur tekið örlitlum breytingum frá því að ég mælti fyrir henni fyrst. Fyrri tillagan er því afturkölluð og sú tillaga sem hér liggur fyrir er þá sú breytingartillaga sem ég flyt ásamt hv. þingmönnum Tryggva Þór Herbertssyni, Birki Jónssyni, Sigmundi Erni Rúnarssyni, Höskuldi Þórhallssyni, Jónínu Rós Guðmundsdóttur, Kristjáni L. Möller og Þuríði Backman.

Hún hljóðar svo:

Við kafla jarðgangaáætlun í 2. tölulið bætist neðanmálsgrein svohljóðandi:

Miðað verði við að rannsóknum á undirbúningi Seyðisfjarðarganga verði hagað með þeim hætti að hægt verði að hefja framkvæmdir við jarðgöng undir Fjarðarheiði í kjölfar Norðfjarðarganga og Dýrafjarðarganga.

Ástæða þess að þessi tillaga er lögð fram af okkur flytjendum hennar er sú að Seyðisfjarðargöng hafa af einhverjum ástæðum lent til hliðar í umræðu um jarðgangagerð undanfarin ár. Við teljum okkur þurfa að vinna að samgönguáætluninni á grunni þeirra áherslna sem dregnar voru upp árið 1987–1990 og lögðu grunn að ákveðinni forgangsröðun í þessum stóra og viðamikla þætti samgöngumála sem jarðgangagerð er.

Ég legg áherslu á að sú tillaga sem hér er flutt kallar ekki á viðbótarfjármuni í samgönguáætlun. Þvert á móti rúmast áætlað fé til rannsókna og undirbúnings jarðganga á áætlunartímabilinu fyllilega og rúmlega það innan þeirra fjárheimilda sem þingsályktunartillagan sem hér liggur fyrir gerir ráð fyrir. Þetta er því ekki spurning um nýtt fé í verkefnið heldur fyrst og fremst að setja Seyðisfjarðargöng og göng undir Fjarðarheiði í rétta framkvæmdaröð. Ég sé það í jarðgangaáætlun að verið er að ræða jarðgöng sem í hugum flestra þingmanna, sem fylgst hafa með þessum málum í alllangan tíma, löngu áður en sá sem hér stendur fór að leiða að þessu hugann, hafa ekki verið í umræðunni fyrr en nú við þá tillögu sem hér er lögð fram, þ.e. þingsályktunartillögu um samgönguáætlun fyrir árin 2011–2022. Það skýtur nokkuð skökku við að sjá áformin þar þegar menn gera enga tilraun í sömu tillögu til að nálgast spurninguna og ramma betur inn umræðuna um jarðgöng undir Fjarðarheiði.

Þessi tillaga er því lögð fram og ég vænti þess að hún hljóti góðar viðtökur. Það er löngu tímabært að veita Seyðfirðingum og Austfirðingum fyllri upplýsingar og meiri stuðning við það verkefni sem jarðgöng undir Fjarðarheiði eru.