140. löggjafarþing — 125. fundur,  18. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[23:19]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til að fylgja örlítið eftir þeirri breytingartillögu sem hér hefur verið lögð fram og í raun til að fylgja eftir máli hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar sem talaði á undan mér. Ég er sem sagt meðflutningsmaður á þessari tillögu.

Mér finnst skipta miklu máli að það sé skýrt í hugum þingmanna að eðlilegt er að líta svo á að áður en við höfum lokið framkvæmd og fullnustu þeirra ganga sem eru á samgönguáætlun, þ.e. Norðfjarðarganga og Dýrafjarðarganga, og á meðan framkvæmdatíminn er í gangi rannsökum við og hönnum næstu göng. Í mínum huga er enginn vafi á því að þau verða svokölluð Seyðisfjarðargöng eða göng undir Fjarðarheiði.

Það er löngu tímabært að rjúfa þá einangrun sem Seyðfirðingar hafa þurft að búa við þar sem þeirra fallegi bær er bak við einn af hæstu fjallvegum landsins og nánast í hverjum mánuði verður ófært vegna snjóa þrátt fyrir að þeir séu í raun og veru með mjög mikilvægt hlið til landsins í gegnum ferjuhöfn sína með ferjusiglingar allt árið. Ég held að við þurfum að koma því á hreint að við eigum að rannsaka og hanna þessi göng strax þannig að þau verði tilbúin til framkvæmda þegar við höfum lokið við göng til Norðfjarðar og Dýrafjarðar.

Mig langar örstutt að minna á að enn er staðan þannig að Hringvegi nr. 1 er illa haldið við og vegurinn illa farinn og lítt uppbyggður á þeim stöðum sem lengst eru frá Reykjavík. Má þar sérstaklega nefna vegpartinn milli Skriðuvatns og Axarvegar. Það gleður mig því mjög að sjá að lagt er til í nefndaráliti hv. samgöngunefndar að framkvæmdum við þann vegarkafla verði flýtt um eitt tímabil þannig að gert er ráð fyrir að fara í þær upp úr 2015–2018. Sömuleiðis er hinni merku samgöngubót og styttingu vegalengdar um tæplega 70 kílómetra yfir Axarveg flýtt um eitt ár. Þó að Austfirðingar hefðu sjálfsagt viljað sjá þessar framkvæmdir komast á dagskrá fyrr er það ákveðið gleðiefni að þeim skuli vera flýtt og vonandi verða þær að veruleika.

Mig langar að taka undir orð hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar í sambandi við tillögu okkar þingmanna Norðausturkjördæmis um að farið verði strax í að rannsaka og hanna jarðgöng undir Fjarðarheiði til Seyðisfjarðar. Ekki er gert ráð fyrir nýju fjármagni því að á hverju tímabili í löngu áætluninni er gert ráð fyrir um 200 milljónum í rannsóknarfé og þar að auki er í stuttu áætluninni gert ráð fyrir um það bil 10 milljónum á hverju ári til að rannsaka jarðgangagerð. Sú tillaga sem hér birtist ætti því að rúmast algerlega innan þeirra fjárheimilda. Okkur er svo sem ekkert að vanbúnaði að ráðast í þetta verk.