140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

samkomulag um lok þingstarfa.

[11:04]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Við munum í dag ljúka þingstörfum á grundvelli samkomulags milli þingflokkanna um lok þingstarfa. Ég vil að fram komi að ég tel mig óbundna af slíku samkomulagi, ég hef ekki veitt neinum umboð til samninga um afdrif mála hér í þinginu, síst af öllu stærstu málanna sem ríkisstjórnin hefur á dagskrá sinni á þessu kjörtímabili, þ.e. fiskveiðistjórnarfrumvarpanna tveggja. Í þeim málum er ég bundin af stefnu flokks míns og þeim stjórnarsáttmála sem hann samþykkti en ekki baksamningum stjórnmálaflokkanna. Þingsköpin eru sett til að verja þingræðið, þau eru lýðræðisreglurnar sem við eigum að fara eftir en á því hefur orðið mikill misbrestur að undanförnu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)