140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

689. mál
[11:06]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frumvarpi, sérstaklega þeirri breytingartillögu sem varð til í atvinnuveganefnd. Hún lýtur að því að nú er lengt það tímabil þar sem hægt er að nýta niðurgreiðslur sem ella hefðu farið til að lækka húshitunarkostnað, til að lækka í þessu tilviki fjármagnskostnaðinn og fjárfestingarkostnaðinn við gerð nýrra hitaveitna. Hér hefur verið stigið ágætisskref og er ástæða til að fagna því. Ég minni hins vegar á að þær tillögur sem hér er verið að ræða byggjast á tillögum nefndar sem hæstv. ríkisstjórn skipaði í fyrra til að gera tillögur um lækkun á húshitunarkostnaði í landinu. Þær tillögur liggja hins vegar enn óhreyfðar á borðum hæstvirtra ráðherra og ég tel það þess vegna eðlilegt framhald að strax í þingbyrjun í haust komi þessar tillögur fram sem geta þá leitt til verulegrar lækkunar á húshitunarkostnaði þar sem hann er hæstur og sárastur. Ég treysti því að hæstv. ríkisstjórn geri það, ella verðum við almennir þingmenn að grípa til okkar ráða og flytja slíkt frumvarp.