140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[11:14]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég fagna því að þetta mál komi nú til atkvæða og ég þakka hv. efnahags- og viðskiptanefnd fyrir vinnuna. Frumvarpið er undirbúið í góðu samstarfi við sparisjóðina og einnig Bankasýslu ríkisins og er að þeirra óskum því að hér er reynt að skjóta traustari stoðum undir þennan rekstur og skapa honum framtíðarmöguleika. Það er mikill misskilningur sem hér kom fram að eitthvert aðalatriði þessa frumvarps sé að opna á þann möguleika að sparisjóðir geti verið í hlutafélagaformi, þvert á móti er aðalatriði þessa máls að skilgreina sparisjóði sem sparisjóði, að leggja á þá skýrar samfélagslegar skyldur og skylda þá til að leggja til samfélags síns hluta af árlegum hagnaði sínum sem og eru starfsreglur eða starfsumgjörð sparisjóða gerð skýr. Í grunninn verða þeir hreinir viðskiptabankar en stunda ekki fjárfestingarstarfsemi eða afleidda starfsemi sem er einmitt það sem fór illa með sparisjóðina, marga hverja, á sínum tíma. Og vel að merkja, (Forseti hringir.) þeir voru nánast allir án undantekninga sparisjóðir en ekki hlutafélagasparisjóðir þegar þeir féllu.