140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[11:34]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að segja megi um báðar þessar breytingartillögur sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson flytur að þær eru fluttar af velvilja í garð sparisjóðanna og eins og Danirnir mundu segja, „meningen er god nok“, en hvorug þeirra gengur almennilega upp að mínu mati. Sú fyrri stæðist engan veginn jafnræðissjónarmið gagnvart mismunandi félagaformum og sú síðari hefur þann skavanka, að mínu mati, að hér er verið að slá því föstu að gera þurfi breytingar strax innan nokkurra mánaða á lögum sem Alþingi samþykkir nú. Það finnst mér varla boðlegt. Hitt er annað mál að það er ekki galin hugmynd að skipa starfshóp til að fylgja eftir þessum breytingum og fara yfir starfsumhverfi sparisjóðanna í samráði við þá, en ég get ekki fellt mig við að sett sé þvingun á starf hóps af þessu tagi og það sé nánast gefið í skyn að koma þurfi með lagabreytingar innan örfárra vikna.

Ég er að hugsa um að bjóða hv. þingmanni upp á að ég muni skipa slíkan starfshóp en að ekki verði á honum kvaðir um að hann skuli leggja fram breytingar á þessum lögum strax innan nokkurra mánaða.