140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[11:39]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér kemur til atkvæðagreiðsla um styttri samgönguáætlunina, þ.e. 2011–2014. Mér er engin launung á því að mér fannst að á þeirri áætlun sem lögð var fram í byrjun væri ekki nægilegt fé inni og ekki nægilega margar framkvæmdir. Ég get hins vegar sagt að þær breytingartillögur sem hér eru settar fram með auknu fé, meðal annars út af veiðileyfagjaldinu, til hvorki meira né minna en 29 liða, eru mér allar mjög vel að skapi. Þetta er orðin metnaðarfull og góð samgönguáætlun sem við greiðum hér atkvæði um.

Hér eru fjölmörg atriði sett inn, eins og snjóflóðaskápar á Súðavíkurhlíð, auknar framkvæmdir á Ströndum og að flýta framkvæmdum við hringveginn. Ég fagna því líka alveg sérstaklega að hér á að leggja fram hlutafé um kaup á nýjum Herjólfi með öðrum aðilum, meðal annars Vestmannaeyjabæ.

Virðulegi forseti. Þetta er Vaðlaheiðargangaleiðin, hún er góð. Um leið og ég fagna þessum metnaðarfullu breytingartillögum (Forseti hringir.) fagna ég því alveg sérstaklega sem hér er sagt um Norðfjarðargöng, að staðið verði við þær framkvæmdir og þær boðnar út á þessu hausti og hefjist (Forseti hringir.) eins fljótt og hægt er á næsta ári.