140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[12:08]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég styð að sjálfsögðu þessa tillögu meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar og greiði henni atkvæði með ánægju. Ég tel að nefndin hafi unnið gott starf. Á grundvelli tekna af sérstöku veiðigjaldi er núna unnt að flýta mörgum mjög brýnum samgönguframkvæmdum, svo sem gerð Norðfjarðarganga, Dýrafjarðarganga, setja aukið fjármagn í tengivegi, í endurnýjun Herjólfs og fleira þar fram eftir götunum. Þingmenn hafa margir hverjir flutt hér breytingartillögur um einstakar brýnar framkvæmdir í kjördæmum sínum eða á heimasvæðum sínum. Flestar þeirra ganga út á að flýta enn meira framkvæmdum sem engu að síður er verið að flýta í tillögum meiri hlutans, hvort sem það er vegur í Árneshrepp sem við öll viljum sjá verða sem fyrst að veruleika, framkvæmdir við Hornafjarðarfljót eða annað í þeim dúr. Þetta gætu að sjálfsögðu allir þingmenn gert og tillögurnar yrðu tugir ef ekki hundruð. Það kæmist seint saman heildstæð samgönguáætlun með yfirvegaðri forgangsröðun ef allir stæðu þannig að málum.

Það er misskilningur að skilja það sem svo að menn séu andvígir framkvæmdum þó að þær hafi farið á tiltekinn stað í forgangsröðuninni. Menn skora engin ósköp með því.

Að lokum verður (Forseti hringir.) að vera unnið eftir einni heildstæðri, yfirvegaðri samgönguáætlun. Ég tel að hún sé komin á borðið og það er ánægjuefni að henni mun nú miða hraðar fram en á horfðist lengi vel. Ég styð þetta með ánægju.