140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[12:18]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég greiði atkvæði með þessu vegna þess að þarna er auðvitað um að ræða margar góðar framkvæmdir. En ég tel þó að með því hvernig staðið var að málsmeðferðinni með Vaðlaheiðargöng hafi verið grafið undan samgönguáætluninni. Ég tel líka að sú áhersla sem hér hefur komið fram varðandi veiðigjöldin og þátt þeirra sé af hinu verra því að mjög skjótt geta veður skipast í lofti. Það þarf ekki annað til en að það dragi mjög úr afla eða, sem getur vel gerst á næstunni, að verð lækki mjög á mörkuðum fyrir útflutningsvörur okkar. Þess vegna er ekki skynsamlegt að byggja á veiðileyfagjaldi og setja það í forsendur fyrir þessu. Þar fyrir utan verð ég að segja eins og er, virðulegi forseti, að það eru margir hæstv. ráðherrar búnir, annaðhvort opinberlega með ummælum sínum eða bara í eigin huga, virðist vera, að eyða þessum fjármunum. Það er með þessar krónur eins og aðrar, þeim verður ekki eytt oftar en einu sinni.

Ég mun segja já við þessu (Forseti hringir.) en það er með nokkuð þungum hug og þó sérstaklega vegna þess að það er of lítið af framkvæmdum hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er staðreynd og það er ekki hægt að horfa fram hjá því.