140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[12:25]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fagna því sem kemur fram í þessari tillögu um flýtingu einstakra framkvæmda og í því sambandi vil ég sérstaklega nefna Dýrafjarðargöng. Þau höfðu verið komin á framkvæmdaáætlun árið 2009 en af ástæðum sem allir vita varð frestun á því. Það er líka ánægjulegt að sjá að þessu framkvæmdastoppi sem hefur verið á jarðgöngum er nú að ljúka með þeim áformum sem hafa verið kynnt í þessari samgönguáætlun. Hins vegar verð ég að nefna að ég harma það mjög að Vestfjarðavegur 60, um Gufudalssveit, er enn og aftur orðinn að eins konar hornreku, er orðinn hornkerling í þessu. Það var gert ráð fyrir því og var samstaða um það meðal heimamanna að hann ætti að hafa sérstakan forgang. Það er gert ráð fyrir því í þessari tillögu að þunginn í þeim framkvæmdum verði á síðasta vegáætlunartímabili, þeim er sem sagt vísað inn í algjöra óvissu. Það hefur ríkt mikil óvissa um vegagerð í Gufudalssveit vegna dómsmála. Nú bætist við þessi pólitíska óvissa með því að þessari framkvæmd er vísað langt inn í framtíðina (Forseti hringir.) og sköpuð fullkomin óvissa um framhald hennar. Ég hefði talið eðlilegt að reyna að flýta þessari framkvæmd og hafa hana að minnsta kosti (Forseti hringir.) á næstsíðasta tímabili. Það er ekki niðurstaðan og það harma ég.