140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[12:32]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég fagna þeim áherslum sem eru hér í langtímasamgönguáætluninni. Það er tvennt sem ég vildi gera að umtalsefni, í fyrsta lagi innanlandsflugið. Þar er margt enn í mikilli óvissu, ég minni til dæmis á að flug til Sauðárkróks sem ég vissi ekki annað en að hefði verið samið um við fjárlagaafgreiðsluna var fellt niður frá síðustu áramótum. Flugið víða um land er í fullkominni óvissu, mér finnst samgönguáætlun ekki taka á því. Sömuleiðis höfum við lagt mikla áherslu á strandsiglingar, þar er búið að vinna gott verk af hálfu innanríkisráðherra og nefnd hefur skilað þar tillögum, en þar vantar eftirfylgni og fjármagn í áætlunina að mínu mati.

Síðast en ekki síst vil ég mótmæla þeirri nálgun að landsbyggðin geti því aðeins fengið vegabætur eins og stórvegaframkvæmdir að hún borgi hingað skatta í formi veiðigjalds. Það finnst mér röng nálgun og óverjandi og minni á (Forseti hringir.) að margir aðrir en ég hafa nefnt þetta landsbyggðarskatt, að landsbyggðinni sé stillt upp (Forseti hringir.) með þeim hætti að hún fái ekki vegi nema hún borgi sjálf skattana beint. Ég er á móti því.