140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[12:43]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég er hálfdapur yfir því að menn vildu ekki setja aukið fé í viðhald á samgöngumannvirkjum sem við höfum haft. Hér er verið að fjalla um Hornafjarðarfljót og ef menn viðhafa þá aðferðafræði og hugsun sem ríkisstjórnin virðist hafa tekið hér upp, að tengja veiðigjald beint við framkvæmdir og segja síðan að það sé kjördæmapot þegar peningarnir eru settir í einhver verkefni, gæti Sveitarfélagið Hornafjörður borgað sjálft þessa brú og hefði gert fyrir löngu ef það mætti nota alla þá fjármuni sem koma þar á land til þjóðarbúsins. En þeir hafa farið inn í hagkerfið og ég er á móti þessari hugsun. Ég bendi á að við erum stöðugt að seinka nauðsynlegum framkvæmdum við Hornafjarðarfljót og látum þær ganga aftar og aftar þrátt fyrir hugmyndir um að tengja framkvæmdir veiðigjöldum. (Forseti hringir.) Ég segi já við þessari tillögu.