140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[12:45]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég tek undir orð síðasta hv. ræðumanns, Sigurðar Inga Jóhannssonar, að ef ríkisstjórnin ætlaði sér að vera samkvæm sjálfri sér ætti að vera hægur leikur að ráðast með meiri metnaði í að brúa Hornafjarðarfljót en hér blasir við. Í raun og veru finnst mér það mjög dapurlegt eftir að hafa fylgst með þróuninni við þessar framkvæmdir á undangengnum árum og seinkanir á þeim, að sjá að ekki sé meiri stuðningur við að flýta brúargerð yfir Hornafjarðarfljót en raun ber vitni. Ég bendi á að framsóknarmenn styðja þessa framkvæmd heils hugar því að hún er mjög brýn. Eins og ég sagði áðan höfum við rætt það í mörg ár hvernig við ætlum að standa að því að bæta samgöngur við Suðausturlandið.